Kórónaveira, áhrif og viðbrögð

13. mars 2020

Kórónaveira, áhrif og viðbrögð

Afgreiðsla sjóðsins er lokuð fyrir heimsóknir

Almenni lífeyrissjóðurinn hefur líkt og aðrir vinnuveitendur gert ráðstafanir til að tryggja rekstur og þjónustustig og halda úti hefðbundinni starfsemi eins og kostur er. Frá og með 16. mars hefur  helmingur starfsmanna unnið heiman frá sér til að draga úr smithættu og tryggja lágmarksþjónustu við sjóðfélaga. Afgreiðsla sjóðsins er lokuð en starfsfólk er í vinnu og svarar sjóðfélögum rafrænt eða síma.

  • Netspjall sjóðsins er opið á skrifstofutíma, sjá almenni.is.
  • Sendið fyrirspurnir á netfangið almenni@almenni.is.
  • Starfsfólk sjóðsins svarar símtölum á opnunartíma, síminn er 510-2500.
  • Upplýsingar um inneign, réttindi og lán eru á sjóðfélagavef. Þar geta sjóðfélagar einnig sótt um lífeyri eða breytingar á ávöxtunarleið með notkun rafrænna skilríkja.
  • Á launagreiðendavef eru upplýsingar um greiðslustöðu launagreiðanda á hverjum tíma. Jafnframt er hægt að skrá og senda skilagreinar til sjóðsins.
  • Hægt er að skila skjölum til sjóðsins í póstkassa sem búið er að setja upp á jarðhæð í Borgartúni 25.

Þetta fyrirkomulag kann að leiða til þess að umsóknir um lán og önnur erindi taki lengri tíma en alla jafnan og biðjumst við velvirðingar á því.

Greiðslufrestir sjóðfélagslána og heimild til lækkunar dráttarvaxta á ógreidd iðgjöld
Í ljósi aðstæðna vegna efnahagslegra áhrifa af völdum COVID-19 mun lífeyrissjóðurinn veita tímabundið greiðslufrest af lánum sjóðfélaga sem eiga í tímabundnum greiðsluerfiðleikum. Sjóðurinn mun í slíkum tilvikum heimila greiðslufrest í allt að sex mánuði. Afborganir verða þá frystar og bætast við höfuðstól sem þýðir að afborganir hækka eftir að greiðslufresti lýkur. Sjóðfélagar eru því hvattir til að halda áfram að greiða af lánum sínum hafi þeir getu til þess. Sjóðfélagar geta sótt um frestun afborgana með því að fylla út umsókn sem má nálgast hér.

Þessu til viðbótar mun lífeyrissjóðurinn koma til móts við tímabundna erfiðleika launagreiðenda með því að reikna almenna vexti af iðgjöldum í vanskilum fyrir launatímabilin febrúar til maí 2020 í stað dráttarvaxta, nema að samningur sjóðsins við viðkomandi sjóðfélaga komi í veg fyrir slíkt. Með almennum vöxtum er átt við vexti skv. 4. gr. laga nr. 38/2001. Innheimta ógreiddra iðgjalda verður óbreytt að öðru leyti.

Sveiflur á eignamörkuðum
Undanfarna daga og vikur hafa verið miklar sveiflur á innlendum og alþjóðlegum verðbréfamörkuðum í kjölfar þess að kórónaveira breiðist um heiminn. Nokkrir sjóðfélagar hafa haft samband vegna þessa og óskað eftir ráðgjöf og nánari upplýsingum. Ráðgjöf okkar er óbreytt sem er að blönduð og vel dreifð verðbréfasöfn séu góður kostur fyrir lífeyrissparnað, skili bestu ávöxtuninni til lengri tíma og veiti góða áhættudreifingu. Ráðlegging okkar er að sjóðfélagar sem hafa valið safn eftir aldri geri ekki breytingar. Eignir ávöxtunarleiða eru vel dreifðar á eignaflokka og lönd en sjóðurinn leggur áherslu á góða eignadreifingu til að draga úr heildaráhættu.

Þeir sem hyggjast nota inneign fljótlega eða á næstu árum og telja sig þurfa að minnka áhættu geta óskað eftir eignabreytingum á sjóðfélagavef eða með því að senda inn umsókn. Sjóðfélagar geta flutt inneign milli verðbréfasafna í einu lagi eða í áföngum. Eignabreytingar eru framkvæmdar í lok mánaðar en vakin er athygli á því að beiðnir um flutning á inneign sem berast síðustu tvo virka daga mánaðar verða afgreiddar í lok næsta mánaðar eftir að beiðni berst. Við bendum sjóðfélögum á að hafa samband við ráðgjafa sjóðsins til að fá nánari upplýsingar.