Getum við aðstoðað?

Jákvæð ávöxtun á fyrri hluta ársins

16. júlí 2024

Jákvæð ávöxtun á fyrri hluta ársins

Ávöxtunarleiðir Almenna lífeyrissjóðsins hækkuðu á bilinu 4,1% til 7,4% á fyrri hluta ársins 2024. Á sama tíma hækkaði vísitala neysluverðs til verðtryggingar um 3,5% þannig að allar ávöxtunarleiðir skiluðu jákvæðri raunávöxtun. Ævisafn I hækkaði mest eða um 7,4%. Sé litið eitt ár aftur í tímann hefur safnið einnig hækkað mest eða um 14,1%.

Í blönduðum ávöxtunarleiðum, þ.e. leiðum sem fjárfesta í hlutabréfum, skuldabréfum og innlánum, eru erlend hlutabréf sá eignaflokkur sem hefur skilað mestri ávöxtun á árinu. Þannig hækkaði Heimsvísitala erlendra hlutabréfa MSCI um 11,7% í dollar en 14,1% í íslenskum krónum á fyrri hluta ársins. Innlend skuldabréf skiluðu einnig ágætis ávöxtun en vísitala Nasdaq Iceland fyrir 10 ára löng verðtryggð skuldabréf hækkaði um 5,2%. Innlendur hlutabréfamarkaður er hins vegar ennþá ískaldur og lækkaði heildarvísitala aðallista um 4,6%.

 

Horfur um ávöxtun til framtíðar eru ágætar. Í flestum vestrænum ríkjum er hægur hagvöxtur og verðbólga hefur lækkað aftur eftir nokkrar hækkanir í kjölfar heimsfaraldurs og stríðsátaka í Úkraínu og fyrir botni Miðjarðarhafs. Vextir eru víðast hvar tiltölulega háir en gætu lækkað á næstu misserum með jákvæðum áhrifum á eignaverð. Á Íslandi eru farin að sjást merki um að hagkerfið sé tekið að hægja á sér eftir kröftugt hagvaxtarskeið síðustu ár. Stýrivextir eru enn háir og þó að hægt hafi á verðbólgu er hún enn nokkuð yfir verðbólgumarkmiðum. Flestir eru þó sammála um að langtímahorfur séu góðar og að innlend hlutabréf og skuldabréf eigi að geta skilað ágætri ávöxtun til framtíðar.

Sagan hefur sýnt að fyrir langtímafjárfesta er yfirleitt vænlegt að leggja megináherslu á eignasamsetningu verðbréfasafns og að halda fjárfestingarstefnu þrátt fyrir sveiflur á einstökum mörkuðum. Ávöxtunarleiðir Almenna lífeyrissjóðsins leggja áherslu á góða eigna- og áhættudreifingu með það að markmiði að skila góðri ávöxtun til langs tíma. Sjóðfélagar geta fylgst með upplýsingum um ávöxtun hér og lesið upplýsingar um fjárfestingarstefnu og eignasamsetningu hér.