Lánabreytingar
Aðstæður þínar kunna að taka breytingum frá því að lán þitt var gefið út. Hér að neðan eru útlistaðar þær breytingar sem þú getur gert á lánum þínum:
- Greiðsluerfiðleikar: Sérstakar upplýsingar um þá möguleika sem standa til boða við greiðsluerfiðleika má nálgast hér.
- Veðflutningur og veðbandslausn: Veð fært af einni fasteign yfir á aðra fasteign. Meginreglan er að nýtt veð rúmist innan heimilda í lánareglum sjóðsins. Með umsókn þurfa að fylgja upplýsingar um nýtt veð ásamt sambærilegum upplýsingar og þegar sótt er um nýtt lán.
- Veðleyfi: Ef gera þarf breytingar á veðréttum sem ganga framar veðrétti Almenna lífeyrissjóðsins þarf að óska eftir veðleyfi. Meginreglan er að veðstaða sjóðsins versni ekki eða að veðstaða standist kröfur sjóðsins eins og um nýtt lán sé að ræða.
- Breytingar á greiðendum – nafnabreyting: Ef óskað er eftir því að fella út annan skuldara af láni eða að bæta við nýjum skuldara, þá þarf í báðum tilvikum að framkvæma greiðslumat. Ef verið er að bæta við skuldara þá þarf sá einstaklingur að vera maki upphaflegs skuldara.
- Skuldaraskipti (skuldskeyting): Skuldaraskipti eru heimiluð á lánum gegn því að nýr skuldari uppfylli skilyrði um greiðslu- og lánshæfismat. Ef nýr skuldari er ekki sjóðfélagi bætist við fast vaxtaálag sem er 1 prósentustig.
- Skilmálabreyting: Upplýsingar um þær skilmálabreytingar sem gera má á lánum koma fram neðar á þessari síðu.
Þú getur sótt um allar lánabreytingar inn á sjóðfélagavef Almenna lífeyrissjóðsins.
Þegar sótt er um lánabreytingar fylgir kostnaður skv. gjaldskrá sjóðsins.
Skilmálabreytingar
Lántakendum standa til boða ýmsar breytingar á lánum sínum sem mikilvægt er að kynna sér vel áður en ákvarðanir eru teknar.
- Breyta afborgunarformi, jafnar afborganir eða jafnar greiðslur.
- Breyta lánstíma.
- Leggja vanskil við höfuðstól.
- Færa lán yfir á breytilega vexti ef lánið hefur lokið fyrsta fastvaxtatímabili.
- Greiðsluhlé í allt að sex mánuði í senn.
- Vegna greiðsluerfiðleika.
- Vegna tímabundinna aðstæðna, t.d. lækkunar á tekjum vegna veikinda, náms eða fæðingarorlofs
Við hvetjum lántaka til að leita upplýsinga hjá ráðgjöfum okkar, sem veitt geta upplýsingar um hvaða breytingar gætu hentað og hvort skilyrði sjóðsins eru uppfyllt.
Þú getur pantað tíma með ráðgjafa hér.
Umsókn um skilmálabreytingu má nálgast á sjóðfélagavef Almenna lífeyrissjóðsins.
Endurfjármögnun lána
Í sumum tilfellum kann það að reynast vel að endurfjármagna þau lán sem þú ert með fyrir.
Helstu breytingar sem hægt er að ná fram með endurfjármögnun:
- Breyttur lánstími.
- Breyta samsetningu óverðtryggðra lána og verðtryggðra.
- Breyta afborgunartegund, val á milli jafnra afborgana og jafnra greiðslna.
- Velja hagstæðari vexti, ef það stendur til boða.
Við hvetjum til að leita upplýsinga hjá ráðgjöfum okkar, sem veitt geta upplýsingar um hvaða lán gætu hentað þér.
Þú getur pantað tíma með ráðgjafa hér.
Umsókn um lán má nálgast á lánavef Almenna lífeyrissjóðsins.
Greiðsluerfiðleikar
Allir geta lent í því að tekjur þeirra eða útgjöld taki skyndilegum breytingum. Við slíkar aðstæður er mikilvægt að vita að ýmis úrræði geta staðið til boða til að auðvelda hverjum og einum að takast á við minni greiðslugetu.
Endurfjármögnun
Endurfjármögnun gæti verið skynsamlegur kostur. Þannig má sameina lán, breyta um lánategund og/eða afborgunartegund og lengja lánstíma. Allar þessar breytingar geta lækkað mánaðarlega greiðslubyrði þína. Umsókn um lán má nálgast á lánavef Almenna lífeyrissjóðsins.
Lengja í lánstíma
Í mörgum tilfellum getur staðið til boða að lengja í þeim lánum sem þú ert með fyrir með skilmálabreytingu. Við það lækkar greiðslubyrði lánsins. Það verður þó að athuga að vextir og verðbætur reiknast yfir lengra tíma sem gerir lánið dýrara miðað við það að lánstími yrði óbreyttur. Umsókn um skilmálabreytingu má nálgast á sjóðfélagavef Almenna lífeyrissjóðsins.
Breyta um afborgunartegund
Lán með jöfnum afborgunum er að jafnaði með þyngri greiðslubyrði heldur en lán með jöfnum greiðslum. Hægt er að breyta um afborgunartegund með skilmálabreytingu, sem leitt getur til lækkunar afborgana. Það ber að hafa í hug að heildargreiðsla vaxta og eftir atvikum verðbóta verður hærri yfir lánstímann þar sem afborgun af höfuðstól er lægri til að byrja með. Umsókn um skilmálabreytingu má nálgast á sjóðfélagavef Almenna lífeyrissjóðsins.
Greiðsluhlé
Lántakendum getur staðið til boða að sækja um greiðsluhlé vegna greiðsluerfiðleika í allt að 6 mánuði í senn. Lánstími lengist sem nemur því greiðsluhlé sem veitt er. Ástæður geta verið af ýmsum toga, nám, fæðingarorlof, veikindi, breytingar á atvinnu og hækkun greiðslubyrði lána umfram greiðslugetu, svo dæmi séu tekin. Umsókn um skilmálabreytingu má nálgast á sjóðfélagavef Almenna lífeyrissjóðsins.
Bæta vanskilum við höfuðstól
Lántakendum getur staðið til boða að leggja vanskil við höfuðstól. Sjóðurinn metur veðrými í hverju tilfelli fyrir sig, en almennt er gert ráð fyrir að veðhlutfall fari ekki yfir 75%. Sjóðurinn áskilur sér þó rétt til að meta hvert tilfelli fyrir sig, með hagsmuni viðkomandi lántaka og annarra sjóðfélaga í huga. Það ber að hafa í hug að heildargreiðsla höfuðstóls, vaxta og eftir atvikum verðbóta verður hærri yfir lánstímann. Umsókn um skilmálabreytingu má nálgast á sjóðfélagavef Almenna lífeyrissjóðsins.
Nánari upplýsingar
Lántakendum standa til boða ýmis úrræði og viljum við hvetja lántakendur til að leita til ráðgjafa okkar og fá nánari upplýsingar um þau úrræði sem gætu hentað.
Þú getur pantað tíma með ráðgjafa hér.
Kostnaður
Þegar sótt er um skilmálabreytingu eða endurfjármögnun fylgir kostnaður skv. gjaldskrá sjóðsins. Til viðbótar kann að bætast við annar kostnaður skv. gjaldskrá sjóðsins.