Getum við aðstoðað?

Viðbótarlífeyrissparnaður

Einstaklingar fá 2% mótframlag frá vinnuveitanda gegn því að greiða 2% - 4% af launum fyrir skatta í viðbótarlífeyris­sparn­að.

  • Viðbótarlífeyrissparnaður er sérstaklega hagkvæmur af því að 2% mótframlag launa­greiðanda bætist við 2%-4% eigið framlag laun­þega sam­kvæmt kjara­samningi eða ráðningar­samningi.
  • Viðbótarlífeyrissparnaður er greiddur í séreignarsjóð. Inneign er laus við 60 ára aldur og erfist við fráfall.
  • Viðbótarlífeyrissparnaður er laus til úttektar ef eigandi verður óvinnufær vegna veikinda eða slysa.
  • Sjóðfélagar velja sjálfir ávöxtunarleið fyrir sparnaðinn sinn og geta valið á milli sex ávöxtunarleiða.
  • Ef einstaklingur verður gjaldþrota geta kröfuhafar ekki gengið að viðbótarlífeyrissparnaði.
  • Viðbótarlífeyrissparnaður nýtur skattalegs hagræðis fram yfir annan sparnað. Mis­munurinn felst í að á sparnaðartíma er ekki greiddur fjármagnstekjuskattur af vaxtatekjum eins og greitt er af öðrum sparnaði.

Samningur um sparnað

Til að hefja viðbótarlífeyrissparnað gera einstaklingar samning við vörsluaðila lífeyrissparnaðar (eins og Almenna) um að launagreiðendur dragi allt að 4% af launum og leggi í séreignarsjóð. Við þann sparnað bætist 2% mótframlag launagreiðanda.

  • Í samningnum kemur fram hvað spara á mikið (allt að 4% af launum) og hvaða ávöxtunarleið er valin fyrir sparnaðinn.
  • Vörsluaðili sér um að tilkynna launagreiðanda um samninginn þegar hann hefur verið gerður.
  • Samningur fellur úr gildi ef einstaklingur eða rétthafi hættir störfum sem eru forsenda fyrir greiðslum.
  • Uppsögn á samningi veitir ekki rétt til útborgunar innstæðu eða réttinda fyrr en á áður umsömdum tíma.
  • Vilji rétthafi hætta greiðslu viðbótariðgjalds tímabundið segir hann upp samningi sínum við vörsluaðila og gerir síðan nýjan samning við vörsluaðilann ef hann vill hefja viðbótarsparnað að nýju eftir uppsögn.

Þægilegt sparnaðarform

Viðbótarlífeyrissparnaður er einstaklega þægilegt sparnaðarform.

  • Launagreiðandi sér um að draga viðbótariðgjöldin frá launum og greiða til vörsluaðila lífeyrissparnaðar.
  • Eftir að launþegi hefur gert samning um lífeyrissparnað sendir vörsluaðili launa­greiðanda afrit af samningnum og er launagreiðandi þá skyldugur til að draga iðgjöldin frá launum og greiða til vörsluaðilans.
  • Ef launagreiðandi greiðir iðgjöldin ekki á réttum tíma eða í næsta mánuði eftir launatímabil er vörsluaðila heimilt að innheimta dráttarvexti.