Ísland í efsta sæti
14. júní 2022
Samkvæmt bráðabirgðatölum OECD jókst lífeyrissparnaður landsmanna um 17,3% á milli áranna 2020 og 2021 sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu á vef Seðlabanka Íslands.
Með lífeyrissparnaði er átt við sparnað í formi samtryggingar og séreignar lífeyrissjóða og annarra vörsluaðila. Hlutfall sjóðssöfnunar á Íslandi er 219% sem er það hæsta meðal aðildarríkja OECD en Danmörk og Holland eru með örlítið lægra hlutfall eða um 210% hvort.
Séreignarsparnaður í vörslu lífeyrissjóða jókst um 18,9% á sama tíma en aukningin hjá öðrum vörsluaðilum var 10%.
Ávöxtun lífeyrissparnaðar hefur verið með ágætum á undanförnum árum en vegin hrein raunávöxtun sjóðanna var 10,40% á árinu 2021 en 9,13% á árinu 2020.
Eftirlitsstofnanir hafa lagt aukna áherslu á gagnsæi kostnaðar við starfsemi lífeyrissjóða og eignastýringu. Samkvæmt samantekt Seðlabankans er heildarkostnaðarhlutfall samtryggingadeilda 0,53% af hreinni eign að meðaltali. Eins og sjá má á mynd 1 þá er heildarkostnaðarhlutfall Almenna með undir meðaltali en ávöxtun með þeim hæstu.
Tryggingafræðileg staða lífeyrissjóðanna hefur batnað undanfarin ár vegna góðrar ávöxtunar. Þó er ljóst að forsendur lífslíkna gefa til kynna að réttindaávinnsla sé ekki sjálfbær til lengri tíma litið. Þetta þýðir að lífeyrissjóðir þurfa undantekningalaust að gera breytingar á samþykktum og dreifa lífeyrisgreiðslum á fleiri ár.
Frétt Seðlabankans má sjá hér, fréttatilkynningu má sjá hér en talnaefnið sem byggt er á er að finna í fréttinni á heimasíðu Seðlabankans.