Fjárfestingarstefna Almenna lífeyrissjóðsins 2017
02. desember 2016
Fjárfestingarstefna Almenna lífeyrissjóðsins fyrir árið 2017 var undirrituð af stjórn sjóðsins þann 23. nóvember 2016.
Fjárfestingarstefnan er birt í heild sinni á vefsíðu sjóðsins, sjá hér. Helstu breytingar sem gerðar eru í fjárfestingarstefnu fyrir árið 2017 eru eftirfarandi:
- Ný séreignarleið hefur litið dagsins ljós, Húsnæðissafn. Safnið fjárfestir í veðskuldabréfum, sértryggðum skuldabréfum, ríkisskuldabréfum og innlánum. Safnið hentar þeim sem vilja nýta séreignarsparnað til að safna fyrir kaupum á fyrstu fasteign og/eða greiða inn á fasteignalán.
- Vægi einstakra flokka skuldabréfa í fjárfestingarstefnunni hefur verið breytt, m.a. til samræmis við vægi þessara útgefanda á skuldabréfamarkaði. Þannig hefur hlutfall veðskuldabréfa (sjóðfélagalána) og fjármálastofnana/sértryggðra skuldabréfa verið aukið. Á móti lækkar m.a. hlutfall ríkisskuldabréfa. Þessi þróun endurspeglar þá breytingu sem orðið hefur á íbúðalánamarkaði. Íbúðalánasjóður er ekki lengur stærsti lánveitandi húsnæðislána til einstaklinga, það hlutverk hefur færst til fjármálastofnana og lífeyrissjóða. Búast má við að þessi þróun haldi áfram á næstu árum og það mun hafa áhrif á fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðsins.
- Í fjárfestingarstefnunni er nú umfjöllun um samfélagslega ábyrgar fjárfestingar og tilgreint með hvað hætti lífeyrissjóðurinn fylgir eftir stefnu sjóðsins, en sjóðurinn horfir m.a. til viðmiðunarreglna Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (UN Principle of responsible investment).