Mótvindur á mörkuðum

10. október 2022

Mótvindur á mörkuðum

Töluverðar lækkanir hafa verið á bæði innlendum og erlendum hlutabréfamörkuðum á árinu. Það sem einkum hefur skýrt þá þróun eru áhyggjur af hárri verðbólgu og hækkun vaxta, þróun orkumála í Evrópu og stríð í Úkraínu. Lækkun á erlendum mörkuðum hefur smitast til Íslands sem er eitthvað sem erfitt er að verjast. Eftir jákvæða byrjun á ársfjórðungnum lækkaði vísitala heildarhlutabréfa (OMXIGI) verulega í september þegar íslenski hlutabréfamarkaðurinn var tekinn í nýmarkaðsvísitölu (FTSE GEIS) hjá Alþjóðlega vísitölufyrirtækinu FTSE Russell. Ávöxtunarkrafa skuldabréfa á markaði hefur fylgt eftir hækkun vaxta og því hefur markaðsverð skuldabréfa með föstum vöxtum lækkað víðast hvar.

Þrátt fyrir erfiðar aðstæður á erlendum mörkuðum er ástandið á Íslandi nokkuð gott. Seðlabankinn og markaðsaðilar virðast vera sammála því að Ísland hafi verið á undan erlendum aðstæðum í sinni vegferð, að þessu sinni. Búist er við því að hagvöxtur á Íslandi verði hár í alþjóðlegum samanburði, allt að 6-7%. Helst ber að nefna að góður árangur hefur náðst hjá ferðaþjónustunni á árinu og hefur hún nánast náð fyrri styrk. Húsnæðismarkaðurinn sýndi ákveðin merki um samdrátt á fjórðungnum, þar sem vísitala íbúðaverðs lækkaði um 0,43% í ágúst. Þetta hefur hjálpað til í baráttunni við verðbólguna en hún hefur núna undanfarna tvo mánuði lækkað sem bendir til þess að hún hafi mögulega þegar náð hámarki.

Ávöxtunarleiðir Almenna lífeyrissjóðsins sem fjárfesta bæði í skuldabréfum og hlutabréfum skiluðu jákvæðri ávöxtun á þriðja ársfjórðungi en ávöxtun þessara safna hefur verið neikvæð fyrstu níu mánuði ársins. Ávöxtunarleiðir sem fjárfesta í verðtryggðum skuldabréfum og verðtryggðum innlánum hækkuðu hins vegar á tímabilinu og var ávöxtun þeirra jákvæð.

Hækkun stýrivaxta

Ávöxtun blandaðra ávöxtunarleiða hefur verið mjög góð á síðustu árum og langtímaávöxtun þeirra er hagstæð. Þrátt fyrir lækkanir á gengi blandaðra safna frá áramótum hefur raunávöxtun þeirra verið á bilinu 0,6% til 3,6% að jafnaði síðastliðin 3 ár og 3,8% til 7,0% síðastliðin 5 ár. Það sem skýrir hagstæða ávöxtun á liðnum árum er meðal annars lækkun vaxta sem hefur að jafnaði í för með sér hækkun eignaverðs og góða ávöxtun bæði skuldabréfa og hlutabréfa. Viðsnúningur hefur orðið á verðbréfamörkuðum á þessu ári, enn eru hnökrar í virðiskeðjum heimsins eftir heimsfaraldurinn og auknar væntingar um vaxtahækkanir hafa haft áhrif þar á. Margt bendir til að vaxtahækkunarferli Seðlabanka Íslands sé að líða undir lok en hins vegar má ekki líta fram hjá því að aðstæður gætu breyst hratt. Hér skal horfa sérstaklega til þess að kjarasamningar á Íslandi eru lausir núna í vetur. Seðlabankinn hefur sagt að það sé ekki mikill sveigjanleiki fyrir miklar hækkanir launa í þessari samningalotu. Einnig er vert að nefna að verð og markaðir með orku og aðrar hrávörur eru viðkvæmir um þessar mundir. Stríðsátökin í Úkraínu hafa haft í för með sér miklar hækkanir á hrávörumörkuðum sem hafa leitt til stóraukinnar verðbólgu í hinum vestræna heimi. Seðlabankar heimsins hafa hækkað stýrivexti mikið á þessu ári til þess reyna að ná tökum á verðbólgu og er líklegt að vextirnir verði hækkaði enn meira á þessu og næsta ári. Það má því gera ráð fyrir áframhaldandi flökti á eignamörkuðum á næstu misserum.

Hlutabréf halda áfram að lækka

Heimsvísitala erlendra hlutabréfa MSCI lækkaði um 25,4% í bandaríkjadollar fyrstu níu mánuði ársins og um 17,3% í íslenskum krónum þar sem íslenska krónan hefur veikst gagnvart USD á tímabilinu. USD hefur verið gríðarlega sterkur á árinu og greiningaraðilar telja ekki miklar líkur á því að USD gefi mikið eftir að svo stöddu. Töluverðar sveiflur hafa verið á innlendum hlutabréfum á árinu. Óstöðugleiki á markaði var knúinn áfram af verðbólgu og stefnuviðbrögðum Seðlabankans ásamt óróa á heimsmarkaði stóran hluta tímabilsins, undir lok ársfjórðungs. Margir fjárfestar bundu vonir um að sterkt innstreymi þegar íslenski hlutabréfamarkaðurinn var tekinn í nýmarkaðsvísitölu hjá FTSE Russell myndi hafa jákvæð áhrif á verð hlutabréfa. Sú von breyttist nokkuð hratt þegar í ljós kom að erlendir fjárfestar höfðu tryggt sér mikið magn af hlutabréfum sem til þurfti til að stilla sín söfn af miðað við vísitöluna. Á endanum lækkaði heildarvísitalan á Íslandi um 4,2% á þriðja ársfjórðungi. Krefjandi markaðasaðstæður voru fyrir hendi allan þriðja ársfjórðung, þar sem alþjóðlegir markaðir voru mikið í sviðsljósinu.

Ávöxtunarkrafa hækkar

Vísitala neysluverðs í ágúst og september var lægri en búist var við, studd af merkjum um kólnandi húsnæðismarkað, eitthvað sem Seðlabanki Íslands var að stefna að með aðgerðum sínum fyrr á árinu. Vísbendingar eru um að verðbólgan hafi þegar náð hámarki þegar ársverðbólga fór yfir 9,9% á þriðja ársfjórðungi. Engu að síður er áfram spáð töluverðri verðbólgu og gera greiningardeildir ráð fyrir að meðalverðbólga yfir árið 2022 verði yfir 8%, en taki svo að lækka og verði rúmlega 6% á árinu 2023.

Upplýsingar um afkomu ávöxtunarleiða Almenna lífeyrissjóðsins:

Blönduð söfn
Ávöxtun blandaðra ávöxtunarleiða, þ.e. Ævisafna I, II, III og samtryggingarsjóðs var frá -1,1% til -9,3%. Lækkanir á erlendum og innlendum hlutabréfamörkuðum höfðu mest áhrif til lækkunar á gengi safnanna en á móti skiluðu innlend skuldabréf jákvæðri ávöxtun.

Ríkissafn
Ríkissafnið lækkaði um 1,0%. Það sem skýrir ávöxtun safnsins er mikil hækkun á ávöxtunarkröfu verðtryggðra skuldabréfa sem þýðir gengistap fyrir skuldabréf, á móti því vann hækkun á vísitölu neysluverðs.

Innlánasafn
Innlánasafnið hækkaði um 8,1%. Safnið ávaxtar eignir sínar að stærstum hluta á bundnum innlánsreikningum og vega verðtryggð innlán um 96% af eignum safnsins.

Húsnæðissafn
Húsnæðissafnið hækkaði um 5,9%. Safnið ávaxtar eignir sínar að mestu í veðskuldabréfum, innlánum og í stuttum óverðtryggðum ríkisskuldabréfum.

Góð eignadreifing
Ávöxtun verðbréfasafna ræðst af eignasamsetningu og ávöxtun einstakra verðbréfaflokka. Almenni lífeyrissjóðurinn leggur mikla áherslu á góða eignadreifingu til að draga úr heildaráhættu safnanna. Sjóðurinn birtir mánaðarlega upplýsingar um ávöxtunarleiðir þar sem meðal annars má lesa um eignasamsetningu. Smellið hér til að skoða upplýsingablöðin. Sjóðurinn birtir einnig ítarlegar upplýsingar um ávöxtun og sveiflur á heimasíðu, sjá nánar hér.