Almenni fær alþjóðlega viðurkenningu
10. desember 2021
Fagtímaritið Investment & Pensions Europe (IPE) valdi Almenna lífeyrissjóðinn besta lífeyrissjóð í Evrópu árið 2021 í löndum með færri íbúa en eina milljón. Þetta var í tuttugasta og fyrsta sinn sem þessi árlegu verðlaun eru veitt og í fimmta skipti sem sjóðurinn hlýtur þau. Að auki hlaut Almenni verðlaun árið 2016 sem besti opni lífeyrissjóðurinn í Evrópu, þ.e. lífeyrissjóður sem tekur við iðgjöldum frá mörgum launagreiðenda.
IPE verðlunin hafa verið veitt árlega frá árinu 2001 og hafa vaxið að umfangi ár frá ári ef frá eru talin tvö undanfarin ár. Að þessu sinni tóku 434 sjóðir frá tuttugu og tveimur löndum þátt, þeirra á meðal stærstu lífeyrissjóðir Evrópu. Dómnefnd var skipuð 91 fagaðila frá 20 löndum sem voru allt frá því að vera fjárfestingaráðgjafar, fyrrverandi stjórnendur lífeyrissjóða, sjálfstæðir fjárfestar yfir í fólk úr háskólasamfélaginu.
Í umsögn sinni fjallar dómnefnd sérstaklega um áhættudreifingu Almenna, fjölda ávöxtunarleiða og aldurstengd söfn í Ævileiðinni, auk fjölþættrar upplýsingamiðlunar og fræðslu á stafrænu formi.
Á myndinni er starfsfólk Almenna með verðlaunagripina en á myndina vantar Evu Ósk Eggertsdóttur og Brynju Margréti Kjærnested.
Þessi verðlaun eru Almenna lífeyrissjóðnum heiður og hvatning til að gera enn betur í þjónustu við sjóðfélaga.
Nánari upplýsingar um IPE verðlaunin 2021 má sjá hér í sérstakri rafrænni útgáfu af tímaritinu.