Getum við aðstoðað?

Ágæt ávöxtun á fyrri hluta 2013

26. júlí 2013

Allar ávöxtunarleiðir Almenna lífeyrissjóðsins hækkuðu á fyrri helmingi ársins. Blandaðar ávöxtunarleiðir séreignarsjóðs , þ.e. Ævisafn I, II og III og Samtryggingarsjóður hækkuðu vegna ávöxtunar á innlendum skuldabréfum sem og hagstæðrar þróunar á innlendum og erlendum hlutabréfamörkuðum. Innlánasafn hækkaði vegna verðbólgu og umsaminna vaxtakjara. Ríkissafn langt og Ríkissafn stutt hækkuðu í takt við þróun á innlendum skuldabréfamarkaði.

Blönduð söfn hækkuðu mest Blandaðar ávöxtunarleiðir nutu góðs af hækkun innlendra markaðsskuldabréfa, erlendra eigna og innlendra hlutabréfa. Innlend hlutabréf hækkuðu mest af framantöldum eignarflokkum, þar næst innlend skuldabréf og svo erlendar eignir. Hækkun innlendra skuldabréfa og erlendra eigna vegur þyngst í ávöxtun blandaðra safna Almenna. Vegna lítils vægis innlendra hlutabréfa í blönduðum söfnum hafði hækkun þeirra ekki afgerandi áhrif á ávöxtun leiðanna á fyrri helmingi ársins. Samtryggingarsjóður hækkaði mest eða um 3,8%, Ævisafn III um 3,4%, Ævisafn II um 3,1%, Ævisafn I um 2,7%.
Innlánasafn hækkaði Innlánasafn, sem ávaxtar eignir sínar á innlánsreikningum, hækkaði um 3,2%. Fengnar verðbætur skýra hluta ávöxtunarinnar þar sem verðbólga var um 2,3%. Verðtryggð innlán vega um 91% af Innlánasafninu.
Ríkissafn-langt hækkaði Ríkissafn langt hækkaði um 1,1% á fyrri helmingi ársins fyrst og fremst vegna verðbólgu á tímabilinu.
Ríkissafn-stutt hækkaði Ríkissafn stutt hækkaði á fyrri helmingi ársins um 2%. Gengishagnaður varð á stuttum óverðtryggðum ríkisskuldabréfum vegna lækkunar á ávöxtunarkröfu á markaði.


Nánari upplýsingar um ávöxtunarleiðir er að finna á mánaðarlegum upplýsingablöðum. Hægt er að fylgjast með daglegri gengisþróun safnanna á síðunni yfirlit ávöxtunarleiða.