Margir hækka í 4%
26. maí 2014
Heimild launafólks til frádráttar iðgjalda frá tekjuskattsstofni vegna viðbótarlífeyrissparnaðar hækkar úr 2% af launum í 4% þann 1. júlí 2014. Hjá þeim launþegum sem voru með 4% samning fyrir eiga iðgjöld að hækka sjálfkrafa en aðrir þurfa að gera nýjan samning með hærri prósentu. Þessa dagana hafa margir samband við Almenna lífeyrissjóðinn í þeim erindagjörðum að hækka viðbótarlífeyrissparnað sinn úr 2% í 4%. Frá og með sama tíma verður mögulegt að greiða viðbótarlífeyrissparnað skattfrjálst inn á húsnæðislán en samkvæmt nýjum lögum geta einstaklingar greitt 500.000 krónur á ári í þrjú ár en hjón og einstaklingar, sem uppfylla skilyrði samsköttunar, geta greitt 750.000 á ári í þrjú ár. Frekari upplýsingar um innborgun viðbótarlífeyrissparnaðar inn á húsnæðislán er að finna hér.
Einfalt að sækja um hækkun
Almenni lífeyrissjóðurinn hvetur sjóðfélaga til að nýta sér heimildir til viðbótarlífeyrissparnaðar og hækka iðgjaldið úr 2% í 4% en með því að smella hér er hægt að fylla út eyðublað til þess. Mælt er með Innlánasafninu fyrir þá sem ætla sér að nýta möguleikann að greiða viðbótarsparnaðinn inn á lán þar sem ávöxtun innlánasafnsins sveiflast lítið. Þeir sem hyggjast nýta sparnaðinn til að bæta við eftirlaunin ættu að velja sér ávöxtunarleið eftir aldri eins og lesa má hér. Útfyllt eyðublað þarf að prenta út og undirrita og senda til baka skannað í tölvupósti, faxi, eða í bréfpósti. Einnig er hægt að koma á skrifstofu okkar í Borgartúni 25 og fylla út eyðublaðið.