Hver er munurinn á óverðtryggðu og verðtryggðu láni?
27. september 2017
Munurinn á óverðtryggðum og verðtryggðum lánum felst í því að í óverðtryggðum lánum má segja að verðbólgan sé staðgreidd en í verðtryggðum lánum er verðbólgan staðgreidd af litlum hluta þannig að stærsti hluti verðbóta leggst við eftirstöðvar lánsins.
Verðtryggð lán bera raunvexti og eru bundin grunnvísitölu sem breytist í hverjum mánuði. Mánaðargreiðslur og eftirstöðvar láns á hverjum tíma taka mið af þessari breytingu. Óverðtryggð lán bera nafnvexti sem reiknast af eftirstöðvum lánsins á hverjum tíma. Nafnvextir eru jafnt og raunvextir ásamt væntri verðbólgu og áhættuálagi.
Greiðslubyrði af verðtryggðum og óverðtryggðum lánum er ólík en almennt má segja að greiðslubyrði verðtryggðra lána sé jafnari en af óverðtryggðum lánum. Verðtryggð lán hækka með breytingu á viðmiðunarvísitölu. Verðbætur bætast við höfuðstól og koma til greiðslu á lánstíma lánsins. Við útreikning á einstökum greiðslum hækkar hver afborgun í takt við verðbólgu en vextir reiknast af verðbættum höfuðstól. Við útreikning á greiðslum óverðtryggðra lána er áföllnum vöxtum bætt við næstu afborgun og því er greiðslubyrðin hærri framan af lánstímanum.