Getum við aðstoðað?

Sjóðfélagar

Almenni lífeyrissjóðurinn er opinn fyrir þá sem vilja greiða til sjóðsins.

 • Almenni er einnig starfsgreinasjóður arkitekta, hljómlistarmanna, leiðsögumanna, lækna og tæknifræðinga.
 • Lágmarksiðgjald í lífeyrissjóð er 15,5% af launum samkvæmt lögum.
 • Lágmarksiðgjald sem greiðist til Almenna skiptist þannig að 8,5% af launum greiðist í samtryggingarsjóð og 7% í séreignarsjóð.

Iðgjald

Lágmarksiðgjald greiðist bæði í samtryggingar- og séreignarsjóð. Viðbótariðgjald greiðist eingöngu í séreignarsjóð.

 • Lágmarksiðgjald í lífeyrissjóð samkvæmt lögum er 15,5% frá og með 1. janúar 2023.
 • Af lágmarksiðgjaldi greiðast 8,5% af launum í samtryggingarsjóð en mismunurinn í séreignarsjóð.
 • Með iðgjaldi í samtryggingarsjóð ávinna sjóðfélagar sér rétt á ellilífeyri til æviloka og áfallalífeyri (örorku-, maka- og barnalífeyrir).
 • Iðgjald greitt í séreignarsjóð myndar inneign sem er laus til úttektar við 60 ára aldur og erfist við fráfall sjóðfélaga.
 • Inneign sem myndast af lágmarksiðgjaldi skerðir greiðslur almannatrygginga hjá þeim sem hefja töku lífeyris frá almannatryggingum frá og með 1. janúar 2023.
 • Iðgjald til viðbótarlífeyrissparnaðar (4% eigið framlag, 2% mótframlag launagreiðenda) hefur ekki áhrif á ellilífeyri almannatrygginga.

Séreignarsjóður

Í séreignarsjóði eru iðgjöld sjóðfélaga færð á sérreikning hans auk ávöxtunar. Iðgjöld hvers sjóðfélaga eru algjörlega hans eign en eru ávöxtuð með ið­gjöldum annarra sjóðfélaga.

 • Sjóðfélagar geta valið á milli sex mismunandi ávöxtunarleiða sem sveiflast mismunandi mikið og hafa mismunandi vænta langtímaávöxtun. Sjá upplýsingar um ávöxtunarleiðir hér.
 • Sjóðfélagar geta breytt ráðstöfun iðgjalda og/eða flutt inneign á milli ávöxtunarleiða.
 • Inneign í séreignarsjóði er laus til útborgunar við 60 ára aldur og geta sjóðfélagar ráðið hvort þeir taka inneignina út í einu lagi eða dreifa úttektinni á lengri tíma.
 • Inneign er laus til útborgunar við örorku og greiðist þá út á sjö árum miðað við 100% örorku. Ef örorkan er minni þá lengist tíminn hlutfallslega.
 • Hlutur erfingja í séreignarsjóði er að fullu laus til útgreiðslu við fráfall.
 • Inneign er lögvarin en það þýðir að það er ekki hægt að ganga að henni ef eigandinn verður gjaldþrota.
 • Óheimilt er að framselja, veðsetja eða á annan hátt ráðstafa inneign í séreignarsjóði. Undantekning frá þessari reglu er ef inneign er skipt á grundvelli samkomulags um gagnkvæm skipti á ellilífeyrisréttindum við maka.
 • Inneign í séreignarsjóði erfist við fráfall sjóðfélaga og er greidd út samkvæmt erfðareglum. Inneign skiptist á milli hjúskaparmaka og barna samkvæmt erfðalögum, þ.e. 2/3 til hjúskaparmaka.
 • Inneign sem myndast af lágmarksiðgjaldi skerðir greiðslur almannatrygginga hjá þeim sem hefja töku lífeyris frá almannatryggingum frá og með 1. janúar 2023.

Samtryggingarsjóður

Með greiðslum í samtryggingarsjóð ávinna sjóðfélagar sér réttindi til elli- og áfallalífeyris.

 • Ellilífeyrir er greiddur frá 60-80 ára aldri til æviloka.
 • Áfallalífeyrir (örorku-, maka- og barnalífeyrir) er greiddur við örorku eða fráfall sjóðfélaga.
 • Einu sinni á ári skal lífeyrissjóður meta fjárhagsstöðu sjóðsins og bera eignir saman við skuldbindingar. Ef niðurstaða sýnir meira en 10% mismun á eignum og skuldbindingum í eitt ár eða meiri en 5% mun í 5 ár verður samtryggingarsjóður að breyta réttindum.

Skipting lífeyrisréttinda

Þegar lífeyrisréttindi hjóna eða sambúðarfólks eru ójöfn getur verið skynsamlegt að skipta þeim til að tryggja báðum ásættanlegan lífeyri eftir að annar aðili hjúskapar eða sambúðar er fallinn frá.

 • Tilgangurinn er að draga úr áhættu með því að tryggja þeim sem á lægri lífeyris­réttindi hluta af réttindum hins.
 • Skipting ellilífeyrisréttinda er gerð með samkomulagi sjóðfélaga og maka og fela í sér gagnkvæma og jafna skiptingu réttinda á meðan að hjúskapur eða óvígð sambúð varir. Með gagnkvæmri skiptingu er átt við að bæði hjónin þurfa að skipta réttindum sínum þannig að bæði veita hinu sama hlutfall réttinda sinna. Hlutfallið getur verið allt að 50%.
 • Með samkomulagi þarf að fylgja heilsufarsvottorð læknis en skilyrði fyrir því að hægt sé að skipta réttindum er að sjúkdómar og heilsufar sjóðfélaga dragi ekki úr lífslíkum þeirra.
 • Einstaklingar í hjúskap eða sambúð geta einnig óskað eftir skiptingu séreignarsparnaðar, ýmist samhliða skiptingu réttinda eða sérstaklega.
 • Á sama hátt og með réttindi skal skipting inneignar fara fram með samkomulagi og fela í sér gagnkvæma og jafna skiptingu inneignar á meðan hjúskapur eða sambúð stendur eða hefur staðið.
 • Eigandi séreignarsparnaðar getur ákveðið að inneign hans skuli allt að hálfu renna til að mynda sjálfstæða inn­­eign fyrir maka hans eða fyrrver­andi maka og lækkar þá inneign eigandans sem því nemur.

Í fræðslugreininni Áhættustýring í hjónabandi eða sambúð, er fjallað um þetta efni en á þessari síðu Landssamtaka lífeyrissjóða má finna upplýsingar og eyðublöð. Fylla þarf út samning um skiptingu ellilífeyrisréttinda og leita til læknis um að fylla út heilbrigðisvottorð og gefa yfirlýsingu.