Vel sóttur afmælisfundur
05. maí 2015
Fjölmenni sótti 50 ára afmælisfund Almenna lífeyrissjóðsins sem haldinn var í Tjarnarbíói 4. maí. Staðsetningin var vel við hæfi þar sem einn forvera sjóðsins, Lífeyrissjóður Tæknifræðingafélags Íslands var stofnaður í Tjarnarbúð þennan dag árið 1965. Á fundinum var kynntur nýr sjóðfélagavefur sem opnaður verður í júní og er afmælisgjöf stjórnar og starfsmanna til sjóðfélaga.
Hljómsveitin Skuggamyndir tók á móti fundargestum með léttri suðrænni tónlist en þá bauð Oddur Ingimarsson, stjórnarformaður, gesti velkomna og renndi stuttlega yfir sögu sjóðsins. Þá tók Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri, til máls og kynnti nýjan sjóðfélagavef en að því loknu var fundargestum boðið í afmæliskaffi.
Nýji sjóðfélagavefurinn er allur hinn glæsilegasti. Á vefnum eru gagnvirkar reiknivélar og framsetning áætlana myndrænni en áður þannig að enn auðveldara verður að átta sig á hvert stefnir og gera áætlanir um lífeyrismál. Auk þess geta sjóðfélagar nú framkvæmt fjölmargar aðgerðir, sótt um og gert breytingar á lífeyrismálum sínum, gengið frá umsóknum og samningum með notkun rafrænna skilríkja. Vefurinn er nú í prófunarferli og verður kynntur nánar þegar nær dregur opnun.