Útivist og lífeyrir
10. mars 2013
Fimmtudaginn 7. mars kl. 14:00 stóð Almenni lífeyrissjóðurinn fyrir fundi fyrir lífeyrisþega og þá sjóðfélaga sem farnir eru að huga að töku lífeyris. Fundurinn var haldinn í húsnæði sjóðsins Borgartúni 25. Fundurinn var vel sóttur en boðið var upp á veitingar og tvö áhugaverð erindi. Báðum erindum var vel tekið.
Minni tími til að vinna upp sveiflur
Þegar líður á starfsævina hefur fólk minni tíma til að vinna upp sveiflur í ávöxtun lífeyrissparnaðar. Þá er ráðlegt að velja ávöxtunarleiðir þar sem sveiflur eru ólíklegri. Helga Indriðadóttir, sjóðstjóri, fjallaði um ávöxtunarleiðir sem henta lífeyrisþegum og þeim sem eru farnir að huga að töku lífeyris.
Útivist við bæjarvegginn
Það er heilnæmt og hressandi að stunda útivist og hreyfingu. Til þess þarf ekki að fara langt eða kosta miklu til. Reynir Ingibjartsson er landsþekktur fyrir gönguleiðabækur sínar en þær fjalla einmitt um það að njóta útivistar í því umhverfi sem nágrennið hefur upp á að bjóða. Reynir fjallaði stuttlega um gönguleiðir á höfuðborgarsvæðinu og þær útivistarperlur sem er að finna við bæjarvegginn.