Tilgreinda séreign má greiða í sjóð að eigin vali
20. september 2017
Iðgjöld á almennum vinnumarkaði hafa nú hækkað í tveimur áföngum úr 12% af launum í 14%. Eftir eitt ár eða þann 1. júlí 2018 mun iðgjaldið svo hækka í 15,5%. Launþegum á almennum vinnumarkaði býðst að greiða hækkunina í tilgreinda séreign sem er laus til útborgunar á fimm árum á aldrinum 62 til 66 ára. Tilgreinda séreignin erfist við fráfall sjóðfélaga.
Heimild til að ráðstafa hluta iðgjalds í tilgreinda séreign er góð viðbót fyrir einstaklinga og gerir þeim kleift að auka svigrúm við töku lífeyris auk þess að dreifa áhættu. Hver og einn þarf þó að taka upplýsta ákvörðun um að ráðstafa hluta af iðgjaldi í tilgreinda séreign. Fyrir flesta er það góður kostur en nokkur atriði þarf að skoða áður en ákvörðun er tekin. Um tilgreinda séreign og ráðgjöf til einstaklinga má lesa í nýrri fræðslugrein á heimasíðu Almenna, sjá hér.
Hægt að velja vörsluaðila
Fjármálaeftirlitið hefur birt dreifibréf þar sem fram kemur að einstaklingar geta valið sér vörsluaðila fyrir tilgreinda séreign og að skyldusjóður skuli greiða iðgjaldið áfram án sérstaks kostnaðarauka fyrir sjóðfélaga, sjá hér. Í bréfinu kemur fram að velji sjóðfélagi að ráðstafa séreignarhluta iðgjalds vegna lágmarkstryggingaverndar til annars aðila skuli um útborgun séreignarinnar gilda sömu reglur og gilda myndu fyrir séreignarhlutann í þeim lífeyrissjóði sem hann greiðir samtryggingarhluta iðgjaldsins til.
Almenni tekur við tilgreindri séreign
Almenni mun taka við tilgreindri séreign frá öðrum lífeyrissjóðum. Þeir sem vilja greiða tilgreinda séreign til sjóðsins þurfa að fylla út umsókn um aðild að sjóðnum, sjá hér.