Samkeppnishæf lánakjör
13. september 2013
Lánakjör sjóðfélagalána Almenna lífeyrissjóðsins, með breyttum lánareglum og óverðtryggðum lánum, standast fyllilega samanburð við bestu lánakjör sem bjóðast. Margar fyrirspurnir um lánin hafa borist frá því breytingar á lánakjörum voru kynntar og greinilegt er að þær mælast vel fyrir.
Verðtryggðir vextir
Þegar litið er til fastra vaxta eru vextir hjá Almenna lífeyrissjóðnum sambærilegir eða lægri en lánveitenda sem bjóða 65% eða 70% hámarks veðhlufall. Gagnvart lánveitendum sem bjóða hærra veðhlutfall er munurinn enn meiri eða allt að einu prósentustigi. Að auki endurskoða sumir lánveitendur vexti sína á 3-5 ára fresti og innheimta uppgreiðslugjald en hjá Almenna lífeyrissjóðnum eru ekki slík ákvæði.
Breytilegir vextir verðtryggðra lána Almenna lífeyrissjóðsins eru einfaldlega lægstu vextir sem í boði eru þó að miðað sé við lægra veðhlutfall. Munurinn er enn meiri eða allt að 1,7 prósentustig þegar veðhlutfall er hærra.
Óverðtryggðir vextir
Óverðtryggðir vextir hjá Almenna lífeyrissjóðnum eru bundnir í 12 mánuði í senn. Þeir eru sem stendur allt að 0,20 prósentustigum hærri en þeirra sem bjóða 60-70% veðhlutfall en allt að 0,90% lægri samanborið við þá sem bjóða 60-80% veðhlutfall. Miðað við 75% veðsetningu eru lánakjör Almenna lífeyrissjóðsins sambærileg og hjá öðrum lánveitendum sem veita óverðtryggð lán.
Almenni lífeyrissjóðurinn hvetur sjóðfélaga sem hyggjast taka lán að bera saman kjör og lánareglur. Smelltu hér til að skoða lánareglur Almenna lífeyrissjóðsins .