Lækkun á mörkuðum á fyrsta ársfjórðungi
10. apríl 2014
Fyrsti ársfjórðungur var erfiður á mörkuðum. Innlendi hlutabréfamarkaðurinn lækkaði um 4,8%, erlend hlutabréf lækkuðu í íslenskum krónum vegna styrkingar íslensku krónunnar og ávöxtunarkrafa verðtryggðra skuldabréfa hækkaði töluvert með tilheyrandi gengistapi. Hækkun á ávöxtunarkröfu skuldabréfa er þó ekki alslæm fyrir langtímasparnað eins og lífeyrisparnað þar sem það þýðir hærri ávöxtun horft fram í tímann.
Ævisöfn og samtryggingarsjóður gáfu eftir | Ávöxtunarleiðir, sem fjárfesta í verðbréfum (bæði skuldabréfum og hlutabréfum), gáfu eftir á fyrsta ársfjórðungi. Ávöxtunarkrafa verðtryggðra skuldabréfa hækkaði á ársfjórðungnum og lækkaði lengsti flokkur íbúðabréfa um 2,5%. Heildarvísitala innlenda hlutabréfamarkaðarins lækkaði um 4,8%, heimsvísitala hlutabréfa hækkaði um 1,3% í dollurum en vegna 2% styrkingar krónunnar gagnvart dollara lækkaði heimsvísitalan um 0,8% í íslenskum krónum. Það sem hefur mest áhrif á ávöxtun verðbréfaleiða Almenna er lækkun á verði innlendra skuldabréfa og lækkun á erlendum mörkuðum. Ævisafn I lækkaði um 1,3%, Ævisafn II um 1,2%, Ævisafn III um 0,4% og samtryggingarsjóður um 1,1%. |
Innlánasafn hækkaði | Innlánasafn, sem ávaxtar eignir sínar á innlánsreikningum, hækkaði um 0,9%. Verðtryggð innlán vega um 94% af Innlánasafninu og fengnar verðbætur skýra um helming ávöxtunarinnar. |
Ríkissafn-langt lækkaði mest | Ríkissafn langt lækkaði um 2,5% á fyrsta ársfjórðungi þar sem ávöxtunarkrafa verðtryggðra skuldabréfa hækkaði töluvert á ársfjórðungnum með tilheyrandi gengistapi. Sem dæmi má nefna að ávöxtunarkrafa lengsta skuldabréfaflokks Íbúðarlánasjóðs hækkaði úr 3,04% í ársbyrjun í 3,34% í lok mars. Þegar ávöxtunarkrafa skuldabréfa á markaði hækkar þá lækkar verð skuldabréfanna en á móti kemur að þau gefa hærri ávöxtun til framtíðar. Þannig mun sá sem keypti löng íbúðarbréf í ársbyrjun fá 3,04% verðtryggða ávöxtun ef hann á þau til gjalddaga en sá sem keypti í lok mars fær 3,34%.Í mars 2014 eru fimm ár liðin frá því safnið var stofnað og hefur það hækkað um 9,3% að jafnaði á ári frá stofnun. Það hefur því skilað góðri langtímaávöxtun og má segja að hluti af gengishagnaði undanfarinna missera hafi gengið til baka. |
Ríkissafn-stutt hækkaði mest | Ríkissafn stutt hækkaði um 1% á fyrsta ársfjórðungi. Gengishagnaður varð á stuttum óverðtryggðum ríkisskuldabréfum vegna lækkunar á ávöxtunarkröfu á markaði. |