Góð ávöxtun um mitt ár
18. ágúst 2020
Sögulega lágir vextir geta haft áhrif á framtíðarávöxtun
Allar ávöxtunarleiðir Almenna lífeyrissjóðsins skiluðu ágætri ávöxtun á fyrir hluta ársins. Ríkissafn langt hækkaði mest á tímabilinu eða um 6,6% en blönduðu verðbréfasöfnin hækkuðu um 4,2% til 5,6%. Árið fór vel af stað en í lok febrúar fór að gæta áhrifa af COVID-19. Bæði innlendur og erlendir hlutabréfamarkaðir lækkuðu skarpt í lok febrúar og í mars. Heimsvísitala erlendra hlutabréfa MSCI náði botni þann 23. mars en þær lækkanir hafa gengið að hluta til baka og hækkaði vísitalan um rúmlega 38% í USD frá lægsta gildi til loka júní.
Ávöxtun á innlendum skuldabréfamarkaði var góð. Ávöxtunarkrafa langra skuldabréfa hefur lækkað verulega frá áramótum og skuldabréf því hækkað í verði. Vísitala Kauphallarinnar fyrir 10 ára löng verðtryggð skuldabréf hækkaði um 8,9% og vísitala Kauphallarinnar fyrir 10 ára löng óverðtryggð skuldabréf um 9,3%. Horft til framtíðar má þó reikna með lægri ávöxtun á skuldabréfamarkaði. Um mitt ár var ávöxtunarkrafa langra óverðtryggðra ríkisskuldabréfa um 2,5% og ávöxtunarkrafa langra verðtryggðra ríkisskuldabréfa um 0,1%.
Vextir á fjármálamörkuðum hafa víðast hvar farið lækkandi á síðustu áratugum og eru sögulega lágir í mörgum löndum, þar á meðal hér á landi. Greining á sögulegri ávöxtun verðbréfa sýnir fylgni á milli vaxtastigs á hverjum tíma og ávöxtunar skuldabréfa og hlutabréfa næstu ára. Þegar raunvextir eru lágir hefur ávöxtun hlutabréfa og skuldabréfa að jafnaði verið undir langtímameðaltali næstu ár á eftir.
Heimsvísitala erlendra hlutabréfa MSCI lækkaði um 5,8% í USD fyrstu sex mánuði ársins en hækkaði um 7,8% í íslenskum krónum þar sem íslenska krónan veiktist um 14,4% gagnvart USD á tímabilinu. Innlendur hlutabréfamarkaður tók vel við sér í maí og júní og lækkunin á vormánuðum hefur gengið til baka. Heildarvísitala aðallista hækkaði um 1% á fyrstu sex mánuðum ársins.
- Ævisöfn I, II, III og samtryggingarsjóður, sem fjárfesta í skuldabréfum, hlutabréfum og innlánum, hækkuðu um 4,2% til 5,6%
- Ríkissafn langt hækkaði um 6,6%
- Ríkissafn stutt hækkaði um 4,1%
- Húsnæðissafn hækkaði um 2,5%
- Innlánasafn hækkaði um 2,0%
Góð eignadreifing
Ávöxtun verðbréfasafna ræðst af eignasamsetningu og ávöxtun einstakra verðbréfaflokka. Almenni lífeyrissjóðurinn leggur mikla áherslu á góða eignadreifingu til að draga úr heildaráhættu safnanna. Sjóðurinn birtir mánaðarlega upplýsingar um ávöxtunarleiðir þar sem meðal annars má lesa um eignasamsetningu. Smellið hér til að skoða upplýsingablöðin. Sjóðurinn birtir einnig ítarlegar upplýsingar um ávöxtun og sveiflur á heimasíðu, sjá nánar hér.