Fjárfestingastefna 2014 birt
29. nóvember 2013
Fjárfestingastefna Almenna lífeyrissjóðsins 2014 var undirrituð af stjórn sjóðsins þann 20. nóvember síðastliðinn. Helstu breytingar á stefnunni eru þær að vægi innlendra hlutabréfa í blönduðum verðbréfasöfnum hefur verið aukið og viðmiðanir við val á innlendum hlutabréfum hafa verið gerðar ítarlegri.
Vægi innlendra hlutabréfa aukið
Vægi innlendra hlutabréfa í fjárfestingarstefnu blandaðra verðbréfasafna hefur verið aukið. Ævisafn I stefnir nú að því að 12% eigna séu innlend hlutabréf, Ævisafn II 10%, Ævisafn III 4% og samtryggingarsjóður 8%. Á móti lækkar vægi erlendra hlutabréfa í fjárfestingarstefnunni. Tilgangurinn með þessari breytingu er að auka áhættudreifingu eins mikið og kostur er á meðan sjóðurinn getur ekki fjárfest í erlendum verðbréfum vegna tímabundinna gjaldeyrishafta.
Ítarlegri viðmiðanir
Viðmiðanir við val á innlendum hlutabréfum hafa nú verið gerðar ítarlegri. Þá hefur einnig verið bætt við heimild til að fjárfesta í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum í gegnum sjóði að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Slíkar fjárfestingar mega vega 0 – 5% af innlendri hlutabréfaeign hverju sinni.
Áhættustefna uppfærð
Áhættustýring hefur verið innleidd í sjóðnum á grundvelli leiðbeinandi tilmæla um áhættustýringu frá FME. Kafli VI um áhættustefnu (útdráttur) hefur nú verið uppfærður með hliðsjón af uppfærðri áhættustefnu sjóðsins, samþykkt af stjórn lífeyrissjóðsins í nóvember 2013.
Smelltu hér til að skoða fjárfestingastefnuna í heild sinni.