Getum við aðstoðað?

Ársskýrsla 2018

02. apríl 2019

Ársskýrsla 2018

Ársskýrsla Almenna lífeyrissjóðsins fyrir árið 2018 hefur verið birt. Ársskýrslan er samtals 96 blaðsíður en í henni er að finna ítarlegar upplýsingar um starfsemi sjóðsins, ársreikning 2018, útdrátt úr fjárfestingarstefnu og áhættustefnu. Skýrsluna má sjá með því að smella hér. 

Helstu atriði í ársreikningi 2018 eru eftirfarandi: 

  • Heildareignir í árslok voru 229,5 milljarðar 
  • Greidd iðgjöld á árinu 14,3 milljarðar 
  • Greiddur lífeyrir 5,3 milljarðar 
  • Nafnávöxtun samtryggingarsjóðs var 5,6%. Frá árinu 1990 hefur raunávöxtunin verið 4,5% að jafnaði
  • Nafnávöxtun séreignarsjóðs var á bilinu 4,0% til 7,0% 
  • Tryggingafræðileg staða versnaði á milli ára og eru heildarskuldbindingar 1,1% umfram heildareignir 
  • Ný lán til sjóðfélaga drógust saman um 7% á milli ára en sjóðurinn veitti ný lán fyrir 10 milljarða. Á árinu voru greidd upp eldri lán fyrir 4,1 milljarð  

Nánar: 

Almenni lífeyrissjóðurinn stækkaði um 21 milljarð eða 10á árinu og námu heildareignir hans 229 milljörðum króna í árslok 2018. Sjóðfélagar í árslok voru 46.053 og fjölgaði um 4% á milli ára. Eignir séreignarsjóðs voru 120 milljarðar en samtryggingarsjóðs 109 milljarðar. 

Greidd iðgjöld til sjóðsins árið 2018 voru samtals 14,3 milljarðar sem er 13% hækkun frá árinu áður. 

Það skiptust á skin og skúrir í ávöxtun blandaðra ávöxtunarleiða á árinu. Í byrjun desember leit út fyrir góða ávöxtun á árinu en þegar leið á mánuðinn varð veruleg lækkun á erlendum hlutabréfamörkuðum og auk þess styrktist krónan sem gerði það að verkum að raunávöxtun var á bilinu 0,7% til 3,7% yfir árið í heild. Verðbólga, hefur haldist lág undanfarin ár og var 3,3% á árinu 2018. 

  • Hæst var ávöxtunin í Ríkissafni löngu sem hækkaði um 7,0% 
  • Blönduð söfn, sem fjárfesta í skuldabréfum, hlutabréfum og innlánum, hækkuðu um 4,7% til 5,6% 
  • Húsnæðissafn hækkaði um 5,5% 
  • Ríkissafn stutt hækkaði um 4,0% 
  • Innlánasafn hækkaði um 5,1% 
  • Sjá nánar frétt um ávöxtun 2018hér. 

Lífeyrisgreiðslur samtryggingarsjóðs voru alls 2,0 milljarðar árið 2018 sem er 16% hækkun frá árinu áður. Heildarfjöldi lífeyrisþega var 1.849. 

Lífeyrisgreiðslur séreignarsjóðs námu alls 3,3 milljörðum sem er 12% hækkun frá árinu áður. Á árinu var greiddur 1 milljarður inn á húsnæðislán vegna 2.544 sjóðfélaga og 61 milljón vegna kaupa á fyrstu íbúð fyrir 70 sjóðfélaga samkvæmt úrræði ríkisstjórnarinnar sem heimilar sjóðfélögum að greiða inn á höfuðstól húsnæðislána. 

Talnakönnun reiknaði á árinu 2018 út sérhæfðar örorku- og dánarlíkur fyrir sjóðinn sem byggja á raunverulegum gögnum í réttindabókhaldi sjóðsins í stað þess að horfa til allra sjóðfélaga íslenskra lífeyrissjóða. Niðurstaða útreikninganna er að örorkulíkur sjóðfélaga í Almenna lífeyrissjóðnum eru lægri en áður var miðað við en meðalævi sjóðfélaga er lengri. Með sérhæfðum örorku- og dánarlíkum versnaði áunnin staða en framtíðarstaða batnaði. Samanlagt batnaði heildarstaða sjóðsins úr -1,1% í -0,6% af skuldbindingum miðað við stöðuna í árslok 2017. 

Ávöxtun eigna samtryggingarsjóðs var um það bil einu prósentustigi lakari en 3,5% núvirðingarprósenta skuldbindinga og því jókst bilið á milli heildareigna og heildarskuldbindinga um 0,5 prósentustig. Tryggingafræðileg úttekt samtryggingarsjóðs miðað við 31. desember 2018 sýnir að heildarskuldbindingar (áfallnar skuldbindingar að viðbættum skuldbindingum vegna framtíðariðgjalda virkra sjóðfélaga) eru 1,1% umfram heildareignir sem samanstanda af núvirtum eignum og framtíðariðgjöldum. Samkvæmt úttektinni eru heildareignir samtryggingarsjóðs 179,2 milljarðar og heildarskuldbindingar 181,2 milljarðar. 

Ársfundur Almenna lífeyrissjóðsins verður haldinn fimmtudaginn 11apríl 2019 á Icelandair Hótel Reykjavík Natura kl. 17:15. Sjá nánar hér.