Ársreikningur 2021 birtur
15. mars 2022
Ársreikningur Almenna lífeyrissjóðsins fyrir árið 2021 hefur verið birtur. Reikningurinn verður lagður fyrir ársfund sjóðsins sem verður haldinn á Icelandair Hótel Reykjavík Natura, Nauthólsvegi 52, 31. mars 2021 kl. 17:15.
Ársskýrsluna í heild má sjá með því að smella hér.
Helstu atriði í reikningnum eru eftirfarandi:
- Heildareignir 367 milljarðar.
- Greidd iðgjöld 18,9 milljarðar sem er 12% hækkun á milli ára.
- Greiddur lífeyrir samtryggingarsjóðs var 3,1 milljarðar.
- Lífeyrisgreiðslur séreignarsjóðs námu 5,3 milljörðum.
- Raunávöxtun samtryggingarsjóðs 10,2%.
- Raunávöxtun séreignarsjóðs var á bilinu -4,4% til 15,1%.
- Á árinu voru veitt ný lán til sjóðfélaga fyrir 11,6 milljarða. Uppgreidd lán á sama tíma námu 10 milljörðum.
- Tryggingafræðileg staða breytist við innleiðingu á nýjum líftöflum.
Nánar:
- Almenni lífeyrissjóðurinn stækkaði um 57 milljarða eða 19% á árinu og námu heildareignir hans 367 milljörðum króna í árslok 2021. Sjóðfélagar í árslok voru 54.897 og fjölgaði um á 5,2% á milli ára. Hrein eign til greiðslu lífeyris í séreignarsjóði var 192 milljarðar og í samtryggingarsjóði 175 milljarðar.
- Ávöxtunarleiðir Almenna lífeyrissjóðsins hækkuðu um 0,3% til 20,7% á árinu 2020. Hæst var raunávöxtunin í Ævisafni I eða 15,1%.
- Árið 2021 greiddi Almenni lífeyrissjóðurinn samtals 8,4 milljarða í lífeyri. Lífeyrisgreiðslur samtryggingarsjóðs voru alls 3,1 milljarður sem er um 12,8% hækkun frá árinu áður. Heildarfjöldi lífeyrisþega var 2.507. Greiðslur úr séreignarsjóði námu alls 5,3 milljörðum sem er óbreytt fjárhæð frá fyrra ári.
- Sjóðurinn lánaði sjóðfélögum 11,6 milljarða á árinu með veði í fasteignum en árið 2020 voru veitt ný lán fyrir 14,3 milljarða. Á árinu voru greidd upp eldri lán fyrir 10 milljarða þannig að nettó lánveitingar námu 1,6 milljörðum.
- Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur samþykkt tillögur Félags íslenskra tryggingarstærðfræðinga um breytingar á forsendum reiknigrunns um lífslíkur. Breyttar forsendur gera ráð fyrir lengri lífaldri sem eykur skuldbindingar lífeyrissjóðanna þar sem þeir greiða ellilífeyri til æviloka. Tryggingafræðileg staða samtryggingarsjóðs Almenna lífeyrissjóðsins batnaði á árinu 2021 vegna góðrar ávöxtunar en versnaði við innleiðingu nýrra líftaflna. Í árslok voru heildarskuldbindingar 6,6% umfram heildareignir.
- Á ársfundi sjóðsins verða kynnt viðbrögð sjóðsins við nýjum líftöflum. Iðgjald í samtryggingarsjóð hækkar úr 8% í 8,5% af launum og sjóðurinn mun innleiða nýja réttindatöflu fyrir framtíðargjöld. Þá verður lögð fram tillaga um aldursháða breytingu á áunnum réttindum frá -3,8% til -15,5% þar sem nú er reiknað með fleiri væntum árum á lífeyri og að yngri sjóðfélagar lifi að jafnaði lengur en þeir eldri. Vegna góðrar ávöxtunar á síðustu árum og með hliðsjón af stöðu samtryggingarsjóðs eftir aldursháða breytingu á réttindum leggur stjórn til að réttindi í samtryggingarsjóði og lífeyrisgreiðslur hækki síðan hlutfallslega jafnt um 3,95%.
Ársfundur 2022 og rafrænt stjórnarkjör
Nánari upplýsingar um rekstur og afkomu Almenna lífeyrissjóðsins verða veittar á ársfundi hans fimmtudaginn 31. mars kl. 17:15 á Icelandair Hótel Reykjavík Natura.
Stjórnarkjör í Almenna lífeyrissjóðinn fer nú fram með rafrænum hætti í aðdraganda ársfundar. Verður það í fyrsta skipti sem sjóðfélögum gefst tækifæri á því að kjósa frambjóðendur til stjórnar með rafrænum hætti. Niðurstaða stjórnarkjörsins verður kynnt á ársfundi sjóðsins.
Samkvæmt samþykktum sjóðsins skal stjórn skipuð þremur einstaklingum af hvoru kyni og þriggja manna varastjórn skal minnst skipuð einum einstakling af hvoru kyni. Kjörtímabili tveggja karla í aðalstjórn og eins karls í varastjórn rennur út á ársfundinum. Að þessu sinni gátu því eingöngu karlar boðið sig fram í aðalstjórn en bæði karlar og konur í varastjórn.
Smelltu hér til að skoða upplýsingasíðu um frambjóðendur.