Getum við aðstoðað?

Ársfundur 2017

22. mars 2017

Ársfundur 2017

Ársfundur Almenna lífeyrissjóðsins verður haldinn  fimmtudaginn 23. mars 2017  á  Icelandair Hótel Reykjavík Natura (Þingsal 2) kl. 17:15.

Dagskrá.

  1. Skýrsla stjórnar.
  2. Ársreikningur 2016 og tryggingafræðileg athugun á fjárhag samtryggingarsjóðs. Sjá ársreikning neðar í frétt.
  3. Kynning á fjárfestingarstefnu.
  4. Tillögur um breytingar á samþykktum sjóðsins. Sjá tillögur hér.
  5. Kosning stjórnar.
  6. Kosning endurskoðenda eða endurskoðunarfélags.
  7. Ákvörðun um laun stjórnar.
  8. Önnur mál.

Á ársfundinum skal kjósa tvo aðalmenn og einn varamann í stjórn til þriggja ára. Vakin er athygli á því að framboðum til stjórnar (aðalmenn) skal skila viku fyrir ársfund sjóðsins. Framboðsfrestur til stjórnar rennur út fimmtudaginn 16. mars 2017 kl. 24:00. Samkvæmt samþykktum skal aðalstjórn sjóðsins skipuð þremur konum og þremur körlum og varastjórn skal skipuð minnst einum af hvoru kyni. Kjörtímabili einnar konu og eins karls lýkur í aðalstjórn og í varastjórn lýkur kjörtímabili einnar konu en fyrir eru tveir karlar. Því skal kjósa eina konu og einn karl í aðalstjórn og konu í varastjórn. Hægt er að senda inn framboð á netfangið almenni@almenni.is.

Ársreikningur 2016

Ársreikningur Almenna lífeyrissjóðsins fyrir árið 2016 hefur verið birtur. Ársskýrsluna í heild má sjá með því að smella hér.

Helstu atriði í reikningnum eru eftirfarandi:

  • Heildareignir 184,9 milljarðar
  • Greidd iðgjöld 11,1 milljarðar
  • Greiddur lífeyrir 4,3 milljarðar
  • Raunávöxtun samtryggingarsjóðs 0,6%. Síðustu 5 ár var raunávöxtunin 5,3% að jafnaði
  • Raunávöxtun séreignarsjóðs var á bilinu -2,5% til 3,1%
  • Tryggingafræðileg staða versnaði á milli ára og eru heildarskuldbindingar 3,5% umfram heildareignir.
  • Ný lán til sjóðfélaga jukust fjórða árið í röð, nú um 170%

Nánar:

  • Almenni lífeyrissjóðurinn stækkaði um 10,8 milljarða eða 6,2% árinu og námu heildareignir hans 184,9 milljörðum króna í árslok 2016. Sjóðfélagar í árslok voru 42.644 og fjölgaði um 3,4% á milli ára. Eignir séreignarsjóðs voru 96,6 milljarðar en samtryggingarsjóðs 88,3 milljarðar.
  • Greidd iðgjöld til sjóðsins árið 2016 voru samtals 11,1 milljarðar sem er 11,3% hækkun frá árinu áður.
  • Ágæt ávöxtun var í söfnum Almenna lífeyrissjóðsins á árinu, nema í söfnum sem eiga hátt hlutfall erlendra verðbréfa. Hæsta ávöxtunin var í Ríkissafni stuttu sem hækkaði um 5,3% (3,1% raunávöxtun). Blönduð söfn, sem fjárfesta í skuldabréfum, hlutabréfum og innlánum, áttu misjafnt ár og var ávöxtun þeirra á bilinu -0,5% til 3,9%. Helsta skýringin á ólíkri ávöxtun er mismunandi eigna­samsetning og styrking ISK. Sjá nánar frétt um ávöxtun 2016 hér.
  • Lífeyrisgreiðslur samtryggingarsjóðs voru alls 1,6 milljarðar árið 2016 sem er 10,9% hækkun frá árinu áður. Heildar­fjöldi líf­eyrisþega var 1.472.
  • Lífeyrisgreiðslur séreignarsjóðs námu alls 2,7 milljörðum sem er 1,5% lækkun frá árinu áður. Á árinu voru greiddar 1.095,9 milljónir inn á húsnæðislán vegna 2.831 sjóðfélaga og 29,7 milljónir vegna kaupa á fyrstu íbúð fyrir 58 sjóðfélaga samkvæmt úrræði ríkisstjórnarinnar sem heimilar sjóðfélögum að greiða inn á höfuðstól húsnæðislána á tímabilinu 1.7.2014 til 30.6.2019.
  • Tryggingafræðileg staða samtryggingarsjóðs versnaði á árinu vegna lágrar ávöxtunar og nýrra dánar- og eftirlifendatafla. Úttektin sýnir að áfallnar skuldbindingar í árslok eru 3,8% hærri en eignir og heildarskuldbindingar (áfallnar skuldbindingar að viðbættum skuldbindi­ngum vegna framtíðariðgjalda virkra sjóðfélaga) eru 3,5% umfram heildareignir sem samanstanda af eignum og núvirði framtíðariðgjalda.
  • Útlán sjóðsins jukust fjórða árið í röð, í þetta sinn um 170%. Sjóðurinn lánaði sjóðfélögum 6.895 milljónir með veði í fasteignum og eru því útlán tæplega sjöfalt hærri en árið 2014 þegar útlán voru 1.039 milljónir.
  • Á árinu 2016 var skipulagi breytt hjá sjóðnum og áhættustjóri ráðinn beint af stjórn. Verkefni áhættustjóra er að fylgja eftir skipulagi innra eftirlits samkvæmt ákvörðun stjórnar auk þess að bera ábyrgð á eftirliti samkvæmt áhættustefnu sjóðsins. Með nýju skipulagi verður áhættueftirlit í höndum áhættustjóra sem tryggir fulla aðgreiningu starfa vegna ákvarðana og eftirliti með áhættum.