Ár innlendra hlutabréfa
12. janúar 2022
Góð ávöxtun og hækkanir á hlutabréfaverði
Á árinu 2021 gætti áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru enn og hafði áhrif á hagkerfi heimsins. Talsverðar sveiflur voru á innlendum og erlendum verðbréfamörkuðum og lituðust markaðir af stöðu faraldursins hverju sinni og framvindu bólusetninga. Lágvaxtaumhverfi heimsins sem og bjartsýni um að nú styttist í lok faraldursins hafði jákvæð áhrif á hlutabréfamarkaði víðast hvar og hækkaði hlutabréfaverð á flestum mörkuðum mikið, sem skilaði góðri ávöxtun inn í blönduð söfn Almenna lífeyrissjóðsins.
Allar ávöxtunarleiðir Almenna lífeyrissjóðsins skiluðu jákvæðri nafnávöxtun á árinu 2021, mest hækkaði Ævisafn I, eða um 20,7% sem jafngildir 15,1% raunávöxtun. Það er næst mesta raunhækkun safnsins á einu ári frá stofnun þess fyrir ríflega tveimur áratugum.
Heimsvísitala erlendra hlutabréfa MSCI hækkaði um 21,8% í USD sem jafngildir um 24,9% hækkun í íslenskum krónum þar sem krónan veiktist gagnvart USD. Mjög góð ávöxtun var á innlendum hlutabréfamarkaði og hækkaði heildarvísitala aðallista um 42,1% sem er næst mesta hækkun á innlendum hlutabréfamarkaði í 15 ár.
Vextir á skuldabréfamarkaði hafa lækkað mikið á síðustu misserum og hafa skuldabréf skilað góðum gengishagnaði sem bætist við ávöxtun bréfanna. Á síðasta ári var áfram ágæt ávöxtun á verðtryggðum skuldabréfum og hækkaði vísitala Nasdaq Iceland fyrir 10 ára löng verðtryggð skuldabréf um 7,9%. Sambærileg vísitala fyrir 10 ára óverðtryggð skuldabréf lækkaði hinsvegar um 2,5%, sem skýrist af hækkun á ávöxtunarkröfu óverðtryggðra skuldabréfa yfir árið, en innan ársins urðu talsverðar sveiflur á ávöxtunarkröfu bréfanna. Verðbólga yfir árið 2021 var 4,84% og reyndist nokkuð umfram það sem flestir höfðu vænst.
Upplýsingar um afkomu ávöxtunarleiða Almenna lífeyrissjóðsins á árinu 2021:
Blönduð söfn | Nafnávöxtun blandaðra ávöxtunarleiða, þ.e. Ævisafna I, II, III og samtryggingarsjóðs var frá 10,4% til 20,7%. Hækkun á innlendum og erlendum hlutabréfamörkuðum hafði mest áhrif til hækkunar á gengi safnanna. |
Ríkissafn | Ríkissafn hækkaði um 6,2%. Lækkun á ávöxtunarkröfu langra verðtryggðra skuldabréfa og hækkun á vísitölu neysluverðs skýra að mestu ávöxtun safnsins. |
Ríkissafn stutt | Ríkissafn stutt hækkaði óverulega, eða um 0,3%. Sveiflur og hækkun á ávöxtunarkröfu stuttra óverðtryggðra skuldabréfa skýra að mestu ávöxtun safnsins. |
Innlánasafn | Innlánasafnið hækkaði um 4,8%. Safnið ávaxtar eignir sínar á bundnum innlánsreikningum og vega verðtryggð innlán ríflega 96% af eignum safnsins. Verðbólga ársins skýrir að mestu ávöxtun á árinu, en vextir á verðtryggðum innlánsreikningum eru nú óverulegir. |
Húsnæðissafn | Húsnæðissafnið hækkaði um 5,2%. Safnið ávaxtar eignir sínar að mestu í veðskuldabréfum, innlánum og í stuttum óverðtryggðum ríkisskuldabréfum. |
Góð eignadreifing
Ávöxtun verðbréfasafna ræðst af eignasamsetningu og ávöxtun einstakra verðbréfaflokka. Almenni lífeyrissjóðurinn leggur mikla áherslu á góða eignadreifingu til að draga úr heildaráhættu safnanna. Sjóðurinn birtir mánaðarlega upplýsingar um ávöxtunarleiðir þar sem meðal annars má lesa um eignasamsetningu. Smellið hér til að skoða upplýsingablöðin. Sjóðurinn birtir einnig ítarlegar upplýsingar um ávöxtun og sveiflur á heimasíðu, sjá nánar hér.