Góð ávöxtun árið 2013
16. janúar 2014
Ávöxtunarleiðir Almenna lífeyrissjóðsins hækkuðu um 2,1 til 8,2% að nafnvirði á árinu 2013. Raunávöxtun var jákvæð í öllum söfnum fyrir utan Ríkissafn-langt sem lækkaði um 1,5% að raunvirði vegna hækkunar á ávöxtunarkröfu langra ríkisskuldabréfa. Hæst var raunávöxtunin á Ævisafni I eða 4,4%. Árið 2013 er þriðja árið í röð sem blandaðar ávöxtunarleiðir skila góðri ávöxtun og hefur Ævisafn I skilað 7,2% raunávöxtun á ári sl. þrjú ár og samtryggingarsjóður 5,9%. Ársfundur Almenna lífeyrissjóðsins verður haldinn þriðjudaginn 18. mars næstkomandi.
Blönduð söfn hækkuðu mest |
Blandaðar ávöxtunarleiðir þ.e. Ævisafn I, II, III og samtryggingarsjóður nutu allar góðs af hækkun erlendra eigna vegna hagstæðrar þróunar á mörkuðum og góðrar ávöxtunar á innlendum hlutabréfum. Ævisafn I hækkaði mest á árinu 2013 eða um 8,2%, Ævisafn II um 7,4%, Ævisafn III um 6,2% og samtryggingarsjóður hækkaði um 7,5%. |
Ríkissafn-langt hækkaði |
Ríkissafn-langt hækkaði um 2,1% á árinu en hækkun á ávöxtunarkröfu íbúðabréfa hafði neikvæð áhrif á ávöxtun safnsins. Ávöxtunarkrafa lengstu íbúðabréfanna hækkaði úr 2,7% í 3,04% sem samsvarar 4,3% verðlækkun á bréfunum. Safnið lækkaði um 1,5% að raunvirði. |
Ríkissafn-stutt hækkaði |
Ríkissafn-stutt hækkaði um 3,7% að nafnvirði eða sem samsvarar verðbólgu ársins 2013. |
Verðtryggð innlán hækkuðu |
Á árinu varð 5,7% hækkun á Innlánasafninu. Fengnar verðbætur skýra stóran hluta ávöxtunarinnar þar sem verðbólga ársins var 3,7%. Verðtryggð innlán vega um 93% af Innlánasafninu. |