Get ég tekið lán til langs tíma?
Hvað þarf að hafa í huga þegar tekið er lán til langs tíma?
Að taka lán er eðlilegur hlutur af fjármálum einstaklinga og fyrirtækja. Tilgangurinn er yfirleitt að eignast hluti, sem eru nauðsynlegir fyrir heimili og rekstur, t.d. húsnæði, og greiða fyrir af tekjum framtíðarinnar.
Að taka lán er mikil ákvörðun. Lán kosta og draga úr ráðstöfunartekjum . Með því að taka lán skuldbindur lántaki sig til að greiða af láninu í langan tíma hvernig sem árar. Lántakinn þarf að vera tilbúinn að þola sveiflur í greiðslubyrði og í tekjum og gjöldum heimilisins.
Þegar tekin eru langtímalán þurfa lántakendur yfirleitt að leggja fram tryggingu fyrir greiðslu lánsins. Einstaklingar setja oftast fasteign heimilisins að veði. Greiðslufall getur því haft alvarlegar afleiðingar fyrir heimilið.
Gefðu þér góðan tíma ef þú þarft eða ert að hugsa um að taka lán. Hér koma nokkur góð ráð til að hafa í huga.
- Spurðu þig hvort þú þurfir að taka lán. Reyndu að forðast að skuldbinda þig til að greiða af lánum til langs tíma og er gott að miða við að búið sé að greiða af láninu þegar á eftirlaun er komið. Taktu ekki lán nema það sé nauðsynlegt og þú ert viss um að geta endurgreitt það. Ef þú tekur lán, reyndu þá að komast af með eins lága fjárhæð og þú treystir þér til.
- Kannaðu kostnað við lántöku. Hvaða vextir eru greiddir og hver er annar lántökukostnaður?
- Ef lán er með breytilegum vöxtum eða verðtryggingu, skoðaðu þá sögulega vexti og verðbólgu. Reynslan segir okkur að sagan endurtekur sig.
- Reiknaðu áætlaða greiðslubyrði lánsins. Reiknaðu miðað við núverandi verðlag en á löngum tíma má gera ráð fyrir að launa- og verðbólguþróun haldist í hendur (sagan segir reyndar að laun hækki meira en verðlag á löngum tíma). Til skamms tíma geta hins vegar orðið frávik og því skaltu einnig reikna greiðslubyrðina miðað við sögulega verðbólgu.
- Skoðaðu hvaða áhrif lántakan hefur á framfærslu og greiðslugetu. Þú verður að geta staðið við þá skuldbindingu að greiða af láninu þrátt fyrir erfiðleika vegna tímabundinnar fjarveru af vinnumarkaði, launalækkunar eða vegna þess að annar kostnaður hækki.
- Kannaðu hvort þú getir greitt lánið upp fyrr. Hvað kostar það? Það er afar mikilvægt að geta greitt upp lán ef aðstæður breytast. Hjá lífeyrissjóðum er yfirleitt ekkert uppgreiðslugjald og hjá öðrum lánastofnunum er fyrirkomulagið breytilegt.
Göran Person, forsætisráðherra Svíþjóðar 1996-2006, sagði eitt sinn að sá sem skuldar væri ekki frjáls. Það er mikið til í þessum orðum og alveg sérstaklega ef skuldir eru mjög miklar. Hófleg lántaka er þó eðlilegur hluti af fjármálum einstaklinga og getur bætt lífsgæði. Skuldir eru miklar ef greiðslubyrði lána er farin að vega mjög þungt af ráðstöfunartekjum og svo þungt að illa getur farið ef forsendur breytast. Ágæt viðmiðun er að greiðslubyrði verði aldrei meiri en 15%-20% af heildartekjum.
Hvernig getur Almenni aðstoðað þig?
- Almenni lífeyrissjóðurinn býður sjóðfélögum að hitta ráðgjafa á stöðufundi um lífeyrisréttindi. Á stöðufundinum er farið yfir réttindi sjóðfélaga og veitt góð ráð um samsetningu lífeyrisréttinda og lífeyrisgreiðslur. Þú getur pantað stöðufund hér.
- Á sjóðfélagavef Almenna lífeyrissjóðsins getur þú fylgst með inneign í séreignarsjóði og réttindum í samtryggingarsjóði. Smelltu hér til að opna sjóðfélagavef eða sækja um aðgang.