Getum við aðstoðað?

Hvernig á að bera sig að þegar kemur að því að sækja um eftirlaun?
Hvenær á að sækja um lífeyrisgreiðslur úr lífeyrissjóðum og útborgun úr séreignarsjóðum?
Hvert á ég að snúa mér?

Eftirlaunaárin eru oft fjórðungur af fullorðinsárunum og margir geta átt von á því að lifa í 15 til 25 ár eftir að þeir hætta að vinna. Mjög mikilvægt er að skipuleggja fjármálin sín af lífeyris er fyrsta skrefið að meta stöðuna.

  • Safnaðu upplýsingum um hvaða réttindi þú átt í lífeyrissjóðum og hverjar lífeyrisgreiðslur verða með áframhaldandi greiðslum. Þú getur séð á síðasta yfirliti frá lífeyrissjóðnum þínum í hvaða sjóðum þú átt réttindi.
  • Hver er inneign þín í séreignarsjóðum og hvað áttu mikinn annan sparnað sem þú getur notað til að bæta við eftirlaunin
  • Hver eru mánaðarleg útgjöld þín?
  • Hver eru heildarlaun þín í dag?
  • Kynntu þér hvaða rétt þú átt til eftirlauna hjá Tryggingastofnun ríkisins

Næsta skref er að ákveða hvenær þú hefur töku lífeyris og hvernig þú gengur á eftirlaunasparnaðinn. Mikilvægt er að vanda þá ákvörðun til að nýta réttindin og sparnaðinn sem best. Almennt er hægt að hefja töku lífeyris úr lífeyrissjóðum á aldrinum 65 ára til 70 ára aldurs en reglur eru þó mismunandi eftir sjóðum. í Almenna lífeyrissjóðnum er t.d. hægt að flýta töku lífeyris til 60 ára aldurs. Þegar lífeyrisgreiðslum er flýtt lækka mánaðarlegar lífeyrisgreiðslur en ef lífeyrisgreiðslum er frestað hækka greiðslurnar. Það þarf að taka tillit til þessara þátta þegar sótt er um lífeyri.

  • Ef þú ert enn í vinnu skaltu skoða í hvaða skattþrepi lífeyrisgreiðslur lenda. Ef þú hækkar um skattþrep borgar sig e.t.v. að hefja töku lífeyris síðar.
  • Hvernig er heilsan og hvað reiknar þú með að lifa lengi? Almennt borgar sig ekki að fresta töku lífeyris til 70 ára aldurs nema ef þú teljir líklegt að þú náir háum aldri vegna góðrar heilsu og langlífis í ættinni.

Hægt er að hefja töku úr séreignarsjóði við 60 ára aldur og er öll inneignin þá laus til útborgunar. Það sem þarf að skoða:

  • Duga lífeyrissjóðsgreiðslur fyrir mánaðarlegum útgjöldum? Ef ekki þarf að átta sig á hversu lengi inneign í séreignarsjóði og annar sparnaður á að nýtast.
  • Í hvaða skattþrepi lendir útborgun úr séreignarsjóði? Hugsanlega borgar sig að lengja útborgunartímann til að lenda í lægra skattþrepi. Mismunur á milli skattþreps 2 og 3 er 6% árið 2011.
  • Ef þú átt almennan sparnað getur verið ráðlegt að ganga á hann á undan séreignarsparnaði. Fjármagnstekjur af almennum sparnaði hafa áhrif á greiðslur frá Tryggingastofnun og svo er greiddur fjármagnstekjuskattur af vaxtatekjum almenns sparnaðar en ekki af séreignarsparnaði.

Þegar vinnu lýkur og eftirlaunaárin taka við er skynsamlegt að gefa sér góðan tíma til að skipuleggja samsetningu eftirlauna. Þeim tíma er vel varið því með réttum upplýsingum og útsjónarsemi nýtist eftirlaunasparnaðurinn vel. Þú átt það skilið eftir langa starfsævi.

 

Hvernig getur Almenni aðstoðað þig?