Getum við aðstoðað?

Er hagstætt fyrir þá sem eiga laust fé að greiða upp lán?
Er uppgreiðsla lána góður ávöxtunarkostur?

Margir eiga hefðbundinn sparnað samhliða því sem þeir skulda húsnæðislán og önnur lán. Með hefðbundnum sparnaði er átt við sparnað sem er lagður fyrir af tekjum eftir skatta. Lífeyrissparnaður er hins vegar lagður fyrir óskattlagður en við úttekt er greiddur tekjuskattur. Eigendur hefðbundins sparnaðar greiða fjármagnstekjuskatt af vaxtatekjum en lífeyrissparnaður er undanþeginn fjármagnstekjuskatti. Í þessari grein er fjallað um hefðbundinn sparnað.

Það er á allan hátt eðlilegt að eiga sparnað samhliða því að skulda. Flestir fjármagna íbúðarkaup að hluta með langtímalánum enda eru kaup á fasteign yfirleitt mjög stór fjárfesting sem ætlað er að endast í langan tíma. Eftir lántöku er hluta af tekjum varið til að greiða niður lánin þar til þau eru uppgreidd. Ef einstaklingar eiga tekjuafgang er hann lagður fyrir eða notaður í aðrar fjárfestingar eða neyslu. Stundum greiða menn sparnað inn á lán eða greiða upp lán en algengast er að einstaklingar fylgi upphaflegri áætlun og greiði af lánum á gjalddögum.

Það er alltaf góður kostur að greiða upp lán og losna þannig undan skuldbindingu um að greiða af lánum í framtíðinni, hvernig sem árar. Ef greiðslubyrði lána er ekki of íþyngjandi eða ef einstaklingar geta ávaxtað sparnað á betri kjörum en vextir á lánum kann að vera betra að fylgja upphaflegri áætlun og leggja fyrir samhliða því að skulda. Eftir efnahagshrunið 2008 og upptöku gjaldeyrishafta í kjölfarið hefur fjárfestingarkostum fyrir sparnað hins vegar fækkað verulega auk þess sem vextir hafa lækkað og fjármagnstekjuskattur hækkað úr 10% af vaxtatekjum í 20%. Af þeim sökum má segja að uppgreiðsla lána sé orðin mun álitlegri kostur en áður.

 

Við mat á því hvort hagstætt sé að greiða upp lán er gott að hafa eftirfarandi í huga.

  • Spyrðu þig fyrst hvort þú getir greitt upp lán. Má heimilið við því að missa sparnað sem getur verið gott að grípa til ef útgjöld verða á einhverju tímabili meiri en tekjur? Getur þú tekið nýtt lán ef á þarf að halda?
  • Kannaðu hvað kostar að greiða upp lán. Skoðaðu líka hvað kostar að taka nýtt lán ef aðstæður breytast í framtíðinni.
  • Safnaðu saman upplýsingum um vaxtakjör af lánum sem þú skuldar. Ef vextir á láni eru í kringum 4% þarf sparnaður að skila um 1% hærri ávöxtun eða nálægt 5% til þess að það borgi sig að eiga sparnað samhliða því að skulda. Slíka ávöxtun er erfitt að fá í lokuðu hagkerfi.
  • Skoðaðu hvaða ávöxtunarkostir eru í boði? Hver er vænt ávöxtun þeirra og áhætta? Að öllu jöfnu skila ávöxtunarleiðir með meiri áhættu hærri ávöxtun til langs tíma. Hafðu í huga að uppgreiðsla lána er áhættulaus fjárfesting í samanburði við aðra ávöxtunarkosti.

Allir þurfa að eiga varasjóð til að grípa til ef þeir verða fyrir áföllum. Það fer eftir aðstæðum hjá hverjum og einum hvað varasjóðurinn þarf að vera stór en til viðmiðunar er oft nefnt að varasjóður þurfi að vera fjárhæð nálægt þriggja til níu mánaða launum. Þeir sem þurfa að sjá fyrir stórri fjölskyldu eða skulda mikið þurfa stærri varasjóð en þeir sem búa einir eða skulda lítið. Við ákvörðun um uppgreiðslu lána þarf að gæta að því að ganga ekki á varasjóðinn eða getu heimilisins til að mæta fjárhagslegum áföllum. Sé varasjóður til staðar og/eða einstaklingur á möguleika á að taka nýtt lán, ef á þarf að halda, getur verið skynsamlegt að greiða lán og slá þannig tvær flugur í einu höggi, velja góðan ávöxtunarkost og draga úr fjárhagslegum skuldbindingum. Þá er lán að greiða lán.

 

Hvernig getur Almenni aðstoðað þig?