Hvenær á ég að hefja töku lífeyris?
Hvenær á ég að byrja að taka lífeyri úr lífeyrissjóðnum mínum?
Það er ekkert einfalt svar til við spurningunni um hvenær á hefja töku lífeyris. Sumir hafa ekkert val vegna þess að þeir fá ekki að vinna lengur eða geta það ekki heilsu sinnar vegna. Aðrir geta ekki hætt vegna þess að þeir treysta sér ekki til þess vegna lágra eftirlauna. Þeir sem eru hins vegar í þeirri stöðu að geta sjálfir ákveðið hvenær þeir hætta að vinna eiga að gera það þegar þeir eru tilbúnir, þ.e. ef þeir telja sig fá næg eftirlaun og eru reiðubúnir að hætta og breyta um lífsstíl. Þegar kemur að töku lífeyris er ráðlegt að gera áætlun um lífeyrisgreiðslur og samsetningu þeirra. Það eru mörg atriði sem hafa áhrif á eftirlaunin og þess vegna borgar sig að vanda sig með það að markmiði að tryggja að tekjustreymið verði jafnt og að eftirlaunasjóðurinn tæmist ekki of fljótt.
Sá sem hættir áður en hann getur hafið töku lífeyris úr lífeyrissjóði (samtryggingarsjóði) þarf að ganga á viðbótarlífeyrissparnað, annan sparnað eða aðrar eignir til að tryggja sér eftirlaun framan af eftirlaunaárunum. Viðbótarlífeyrissparnaður er laus til úttektar frá 60 ára aldri og geta eigendur sparnaðarins tekið inneignina út í einu lagi eða dreift úttektinni á mörg ár. Þar sem ekki er greiddur fjármagnstekjuskattur af viðbótarlífeyrissparnaði getur verið hagstætt að ganga fyrst á annan sparnað. Annað atriði sem mælir með því að ganga fyrst á annan sparnað er að ekki er greiddur erfðafjárskattur af viðbótarlífeyrissparnaði ef erfingjar eru maki og börn.
Lífeyrissjóðir reikna ellilífeyrisréttindi miðað við ákveðinn eftirlaunaaldur og heimila sjóðfélögum að fresta eða flýta töku lífeyris frá eftirlaunaaldri. Reglur um töku lífeyris eru mismunandi milli sjóða en í samtryggingarsjóði Almenna lífeyrissjóðsins er eftirlaunaaldur 70 ár en heimilt er að flýta töku lífeyris til 60 ára aldurs. Myndin sýnir hvernig 70 ára réttindi lækka ef sjóðfélagi hefur töku lífeyris fyrr.
(Smelltu á mynd til að stækka)
Þegar lífeyrissjóðir gefa út stuðla um hvernig lífeyrisgreiðslur breytast ef sjóðfélagi hefur töku lífeyris, fyrir eða eftir eftirlaunaaldur, gæta sjóðirnir þess að lífeyrissjóðurinn í heild tapi ekki á ákvörðun einstakra sjóðfélaga. Þess vegna er stefnt að því að sá sem hættir fyrr fái svipaðar greiðslur samtals miðað við meðalævilengd ef viðkomandi myndi hefja töku lífeyris miðað við viðmiðunaraldur sjóðsins. Til viðbótar bætist við skerðing af því að reiknað er með að einhverjir hefji töku lífeyris fyrr vegna heilsufarsupplýsinga sem þeir búa yfir.
Með því að heimila sjóðfélögum að flýta töku lífeyris til allt að 60 ára aldurs aukast líkur á að sjóðfélagar, sem hafa ástæðu til að ætla að þeir lifi skemur en meðaltal, hefji töku lífeyris fyrr. Því er innbyggð skerðing á lífeyri ef töku hans er flýtt en skerðingin minnkar með aldrinum. Vegna þessa fyrirkomulags er almenna ráðleggingin sú að lífeyrisþegar hefji töku lífeyris nálægt viðmiðunaraldri lífeyrissjóðs, að því gefnu að þeir eigi aðrar eignir eða viðbótarlífeyrissparnað til að greiða sér eftirlaun áður. Ef einhver telur hins hins vegar líklegt að hann lifi skemur en meðalævilengd ætti viðkomandi að flýta töku lífeyris.
(Smelltu á mynd til að stækka)
Þegar kemur að töku lífeyris þarf að skoða mörg atriði. Hér koma nokkur góð ráð sem gott er að hafa í huga.
- Byrjaðu á því að gera áætlun um lífeyrisgreiðslur og hvernig þú gengur á eignir. Markmiðið er að tryggja jafnt tekjustreymi og að eftirlaunasjóðurinn tæmist ekki of fljótt.
- Taktu út annan sparnað áður en þú tekur út viðbótarlífeyrissparnaðinn þinn. Þannig lækkar fjármagnstekjuskattur og við fráfall greiða maki og börn lægri erfðafjárskatt.
- Gættu að því að nýta persónufrádrátt vegna tekjuskatts. Ef þú hættir að vinna áður en þú hefur töku lífeyris úr samtryggingarsjóði og ákveður að ganga á aðrar eignir fyrst, skaltu til viðbótar taka út mánaðarlegar greiðslur af viðbótarlífeyrissparnaði þannig að þú nýtir persónufrádrátt.
- Kynntu þér hvaða réttindi þú átt hjá Tryggingastofnun ríkisins. Þau geta haft áhrif á áætlun þína um lífeyrisgreiðslur.
- Flýttu töku lífeyris úr lífeyrissjóðnum þínum ef þú telur líklegt að þú lifir skemur en meðalævilengd. Annars skaltu sækja um töku lífeyris nálægt eftirlaunaaldri sjóðsins.
Að hefja töku lífeyris er eins og hvert annað verkefni. Líkur á að vel takist til aukast með góðum undirbúningi og skipulagningu. Eftirlaunaárin eru að því leyti til ólík öðrum æviskeiðum að lífeyrisþegar hafa ekki tíma til að vinna upp áföll vegna óvæntra útgjalda eða hugsanlegrar lækkunar á höfuðstöl vegna óhagstæðrar þróunar á mörkuðum. Áætlun um lífeyrisgreiðslur og ákvörðun um eignasamsetningu eftirlaunasjóðs þarf að taka tillit til þess.
Hvernig getur Almenni aðstoðað þig?
- Almenni lífeyrissjóðurinn býður sjóðfélögum að hitta ráðgjafa á stöðufundi um lífeyrisréttindi. Á stöðufundinum er farið yfir réttindi sjóðfélaga og veitt góð ráð um samsetningu lífeyrisréttinda og lífeyrisgreiðslur. Þú getur pantað stöðufund hér.
- Á sjóðfélagavef Almenna lífeyrissjóðsins getur þú fylgst með inneign í séreignarsjóði og réttindum í samtryggingarsjóði. Smelltu hér til að opna sjóðfélagavef eða sækja um aðgang.