Getum við aðstoðað?

Hvernig á ég að undirbúa mig ef ég hyggst hætta að vinna innan fárra ára?
Er orðið of seint að gera ráðstafanir til auka eftirlaunin?

Besta og auðveldasta leiðin til að tryggja góð eftirlaun er að byrja að undirbúa sig tímanlega. Afkoma á eftirlaunaárunum ræðst yfirleitt mest af því hversu duglegir einstaklingar eru að leggja fyrir á starfsævinni. Því fyrr sem fólk byrjar að undirbúa sig því minna þarf að leggja fyrir í einu og því meiri vextir safnast.

Flestir byrja þó fyrir alvöru að huga að tekjum á eftirlaunaárunum 5 til 10 árum fyrir starfslok. Þegar svo stutt er í starfslok hefur svigrúm til að gera ráðstafanir sem auka eftirlaunin minnkað en þó er ýmislegt hægt að gera sem skiptir máli.

  • Ef þú hefur ekki þegar gert áætlun um eftirlaunasparnað skaltu byrja á því. Safnaðu upplýsingum um áunnin eftirlaunaréttindi í þeim lífeyrissjóðum sem þú hefur greitt í og áætlaðu hvað þú munir bæta við með áframhaldandi greiðslum til starfsloka. Reiknaðu hvað viðbótarsparnaður bætir miklu við.
  • Kannaðu hvaða eftirlaunagreiðslum þú mátt eiga von á frá Tryggingastofnun.
  • Ef þér finnst áætluð eftirlaun vera of lág þarf að bretta upp ermar. Þú getur bætt við eftirlaunin með því auka sparnað eða nýta eignir betur.
  • Nýttu þér heimildir til viðbótarlífeyrissparnaðar eins og hægt er og bættu svo við reglulegum sparnaði til viðbótar ef þarf.
  • Farðu yfir skuldir þínar og alveg sérstaklega langtímaskuldir sem verða að öðru óbreyttu ekki greiddar upp áður en vinnu lýkur. E.t.v. er uppgreiðsla skulda hagstæðasti sparnaður sem þú átt völ á.
  • Skoðaðu hvort þú getir minnkað við þig eignir til þess að auka tekjur og minnka gjöld. Oft má t.d. fá ágæta fjárhæð í milli þegar skipt er á stórri og lítilli íbúð og þetta fé er hægt að ávaxta vel, t.d. í ríkisskuldabréfum.
  • Hugaðu að samsetningu sparifjár og reyndu að draga úr áhættu vegna verðsveiflna. Á eftirlaunaárunum er markmiðið ekki að fá hæstu ávöxtun, heldur að draga úr sveiflum og fá jafna og stöðuga ávöxtun. Því markmiði er hægt að ná með því að geyma stærstan hluta sparnaðarins í stuttum skuldabréfum, víxlum og á innlánsreikningum. Við mælum með að einstaklingar hefji eignabreytingar og aðlögun 5 til 10 árum áður en vinnu lýkur.

Íslendingar eru lánsamir að eiga gott lífeyriskerfi sem tryggir lágmarkslífeyri. Með ráðdeild og viðbótarsparnaði er hægt að bæta við eftirlaunin og hér, eins og svo oft áður, gildir að ,,hver er sinnar gæfu smiður.“

Jákvætt hugarfar hjálpar alltaf. Framundan eru spennandi ár sem eiga að vera skemmtileg, sérstaklega ef heilsan og fjármálin eru í lagi. Rannsóknir hafa sýnt að jákvætt viðhorf hefur góð áhrif á heilsuna og létt lund lengir lífið. Settu stefnuna á að eftirlaunaárin verði bestu ár ævinnar og reyndu að skipuleggja undirbúninginn og aðlögun að nýju lífi með nægum frítíma með það að leiðarljósi.

 

Hvernig getur Almenni aðstoðað þig?