Hver er munurinn á jöfnum greiðslum og jöfnum afborgunum?
27. september 2017
Ef lán eru með jöfnum afborgunum er höfuðstólnum dreift jafnt á fjölda afborgana og vextir bætast síðan við afborganir. Greiðslur lækka þá þegar líður á lánstímann því vextir lækka þegar höfuðstóllinn greiðist niður.
Ef lán er með jöfnum greiðslum greiðir lántakandinn alltaf sömu upphæð á hverjum gjalddaga (ef vextir eru fastir og lán óverðtryggð) en greiðir hinsvegar mismunandi hlutfall vaxta og höfuðstóls. Til að byrja með er hlutfall vaxta mjög hátt en smátt og smátt eykst hlutfall höfuðstóls eftir því sem líður á lánstímann.
Kostir lána með jöfnum afborgunum er að þau greiðast hraðar niður en lán með jöfnum greiðslum en á móti kemur að greiðslubyrðin er mun þyngri framan af lánstímanum. Kostir lána með jöfnum greiðslum er að greiðslubyrðin helst stöðug yfir lánstímann ef vextir eru fastir eða sveiflast lítið en hins vegar greiðist höfuðstóllinn hægar niður í samanburði við lán með jöfnum afborgunum.
Lánareglur sjóðsins má lesa hér.