Getum við aðstoðað?

Yfirlýsing

26. febrúar 2016

Vegna gagnsæistilkynningar FME dags. 26.02.2016 þar sem tilkynnt er sú ákvörðun stjórnar FME að leggja stjórnvaldssekt á Almenna lífeyrissjóðinn út af tilteknum viðskiptum hans með skuldabréf í flokki HSVE 13 01 í mars 2015 vill sjóðurinn koma eftirfarandi á framfæri.

Almenni lífeyrissjóðurinn er ósammála niðurstöðu FME og telur að umrædd viðskipti hafi ekki brotið gegn 1. tl. 1. mgr. 123. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti svo sem færð voru rök fyrir í andmælum sjóðsins til FME. Er það einnig mat þeirra óháðu sérfræðinga sem sjóðurinn ráðfærði sig við vegna athugunar á umræddum viðskiptum.

  • Sjóðurinn hefur ekki litið á að það séu innherja­upplýsingar þegar miðlari leitar eftir besta verði fyrir hönd seljanda og setur fram hugmyndir um verð við mögulega kaupendur, sem í þessu tilviki voru ekki í takt við verð annara skuldabréfa­flokka. Sjóðurinn telur að almennt líti aðrir aðilar á markaði ekki á slíkar upplýsingar sem innherjaupplýsingar, enda geti verið erfitt fyrir aðila á markaði að meta hvenær slíkar þreifingar geti falið í sér innherjaupplýsingar. Telur sjóðurinn óeðlilega langt gengið hjá FME í túlkun sinni um þetta í þessu tilviki.
  • Sjóðurinn er ósammála því mati FME að enginn vafi hafi leikið á að nýr skuldabréfaflokkur yrði seldur miðað við þá ávöxtunarkröfu sem miðlari lagði til fyrir hönd seljanda. Þess vegna hafi umræddar upplýsingar ekki verið nægilega tilgreindar í skilningi laga.
  • Það er einnig mat sjóðsins að verðmunur í viðskiptum sjóðsins, sem FME sektar fyrir, hafi verið innan hefðbundins samningsbils í skuldabréfaviðskiptum (í þessu tilviki 20p eða 0,2% munur á ávöxtunarkröfu) og hafi því ekki haft marktæk áhrif á markaðsverð.

Af hálfu sjóðsins verður farið nánar yfir niðurstöðu FME og viðbrögð sjóðsins við henni.