Ný persónuverndarlög taka gildi
16. júlí 2018
Ný lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga tóku gildi sunnudaginn 15. júlí 2018, sjá lög nr. 90/2018 á vef Alþingis. Með persónuupplýsingum er átt við allar þær upplýsingar sem hægt er að rekja beint eða óbeint til einstaklings, til dæmis kennitala, símanúmer, bílnúmer og raðnúmer snjallsíma og IP-tala tölvu.
Lögin hafa í för með sér töluverðar breytingar á hvernig fyrirtæki og stofnanir vinna með persónuupplýsingar. Meðal helstu breytinga eru aukin réttindi einstaklinga til að fá upplýsingar um og hafa stjórn á hvernig unnið er með þeirra persónuupplýsingar. Með lögunum er þannig tryggt að einstaklingar eiga rétt á því að fá aðgang að þeim persónuupplýsingum sem fyrirtæki/stofnanir afla um þá. Í lögunum er einnig talað um réttinn til að gleymast en í vissum tilfellum getur fólk farið fram á upplýsingum verði eytt þegar þær eru ekki lengur nauðsynlegar í þeim tilgangi sem söfnun þeirra náði til.
Hjá Almenna lífeyrissjóðnum hefur verið unnið að innleiðingu laganna í nokkurn tíma. Þannig hefur sjóðurinn (1) yfirfarið hvenær og hvernig samþykki fyrir vinnslu persónuupplýsinga er aflað frá sjóðfélögum, (2) kortlagt vistun og varðveislutíma gagna, (3) yfirfarið samninga við þjónustuaðila ásamt því að (4) unnið er í því að uppfæra innri verkferla með tilliti til laga um persónuvernd. Sjóðurinn hefur svo sett sér sérstaka persónuverndarstefnu sem er birt á heimasíðu sjóðsins, sjá hér. Jafnframt hefur Sigurður Kári Tryggvason, lögfræðingur sjóðsins, verið skipaður persónuverndarfulltrúi sjóðsins og geta sjóðfélagar leitað til hans ef þeir eru ósáttir við vinnslu sjóðsins á persónuupplýsingum.
Í tilefni af nýjum lögum um persónuupplýsingar hefur Almenni tekið saman nokkrar spurningar um lögin og svör við þeim sem sjá má með því að smella hér.