Getum við aðstoðað?

Lækkun á hlutabréfamörkuðum

18. júlí 2022

Lækkun á hlutabréfamörkuðum

Töluverðar lækkanir hafa verið á bæði innlendum og erlendum hlutabréfamörkuðum á fyrri hluta ársins. Einnig hefur verið lækkun á innlendum óverðtryggðum skuldabréfum en verðryggð skuldabréf hafa hækkað í verði þar sem vísitala neysluverðs hefur hækkað umfram lækkun þeirra vegna hækkunar á ávöxtunarkröfu. Ávöxtunarleiðir Almenna lífeyrissjóðsins sem fjárfesta bæði í skuldabréfum og hlutabréfum skiluðu neikvæðri ávöxtun á fyrri árshelmingi. Ávöxtunarleiðir sem fjárfesta í verðtryggðum skuldabréfum og verðtryggðum innlánum hækkuðu hins vegar á tímabilinu og var ávöxtun þeirra jákvæð.

Viðsnúningur í vaxtaþróun
Ávöxtun blandaðra ávöxtunarleiða hefur verið mjög góð á síðustu árum. Þrátt fyrir lækkanir á gengi blandaðra safna frá áramótum hefur raunávöxtun þeirra verið á bilinu 1% til 4% að jafnaði síðastliðin 3 ár og 2,8% til 6,3% að jafnaði síðastliðin 5 ár. Það sem skýrir hagstæða ávöxtun á liðnum árum er meðal annars lækkun vaxta sem hefur að jafnaði í för með sér hækkun eignaverðs og góða ávöxtun bæði skuldabréfa og hlutabréfa. Viðsnúningur hefur orðið á verðbréfamörkuðum á þessu ári, enn eru hnökrar í virðiskeðjum heimsins eftir heimsfaraldurinn og auknar væntingar um vaxtahækkanir hafa haft áhrif þar á.

Hækkun á hrávörumarkaði
Stríðsátökin í Úkraínu hafa haft í för með sér miklar hækkanir á hrávörumörkuðum sem hafa leitt til stóraukinnar verðbólgu í hinum vestræna heimi. Seðlabanki Bandaríkjanna hækkaði stýrivexti um 0,75 prósentustig í júní sem er mesta hækkun stýrivaxta í tæp 30 ár. Seðlabanki Evrópu hefur boðað stýrivaxtahækkanir í júlí og telur líklegt að svo verði einnig í september. Það má því gera ráð fyrir áframhaldandi flökti á eignamörkuðum á næstu misserum.

Hlutabréf lækka
Heimsvísitala erlendra hlutabréfa MSCI lækkaði um 20,5% í bandaríkjadollar fyrstu sex mánuði ársins og um 18,5% í íslenskum krónum þar sem íslenska krónan hefur veikst gagnvart USD á tímabilinu. Töluverðar sveiflur hafa verið á innlendum hlutabréfum á árinu. Lækkunin sem var fyrstu vikur ársins gekk til baka í mars en markaðurinn sneri aftur í byrjun apríl og hefur heildarvísitala aðallista lækkað um 12,2% á fyrri hluta ársins.

Ávöxtunarkrafa hækkar
Ávöxtunarkrafa bæði verðtryggðra og óverðtryggðra skuldabréfa hefur hækkað á árinu sem leiðir til verðlækkunar á gengi skuldabréfa. Vísitala Kauphallarinnar fyrir 10 ára löng óverðtryggð skuldabréf lækkaði um 6,7% fyrstu sex mánuði ársins. Hins vegar hækkaði vísitala Kauphallarinnar fyrir 10 ára löng verðtryggð skuldabréf um 3,3% á tímabilinu þar sem vísitala neysluverðs hækkaði um 5,2% fyrstu sex mánuði ársins. Áfram er spáð töluverðri verðbólgu og gera greiningardeildir ráð fyrir að meðalverðbólga yfir árið 2022 fari yfir 8% og verði um 6,5% árið 2023.

  • Blönduð söfn, söfn sem fjárfesta í skuldabréfum, hlutabréfum og innlánum, lækkuðu um 2,6% til 10,1%
  • Innlánasafnið hækkaði um 5%
  • Húsnæðissafnið hækkaði um 3,7%
  • Ríkissafnið hækkaði um 1,7%

Upplýsingar um afkomu ávöxtunarleiða Almenna lífeyrissjóðsins:

 
Blönduð söfn Ávöxtun blandaðra ávöxtunarleiða, þ.e. Ævisafna I, II, III og samtryggingarsjóðs var frá  -2,6% til -10,1%. Lækkanir á erlendum og innlendum hlutabréfamörkuðum höfðu mest áhrif til lækkunar á gengi safnanna en á móti skiluðu innlend skuldabréf jákvæðri ávöxtun.
Ríkissafn Ríkissafnið hækkaði um 1,7%. Hækkun á ávöxtunarkröfu verðtryggðra skuldabréfa og hækkun á vísitölu neysluverðs skýrir að mestu ávöxtun safnsins.
Innlána-safn Innlánasafnið hækkaði um 5%. Safnið ávaxtar eignir sínar að stærstum hluta á bundnum innlánsreikningum og vega verðtryggð innlán um 97% af eignum safnsins.
Húsnæðis-safn Húsnæðissafnið hækkaði um 3,6%. Safnið ávaxtar eignir sínar að mestu í veðskuldabréfum, innlánum og í stuttum óverðtryggðum ríkisskuldabréfum.

Góð eignadreifing
Ávöxtun verðbréfasafna ræðst af eignasamsetningu og ávöxtun einstakra verðbréfaflokka. Almenni lífeyrissjóðurinn leggur mikla áherslu á góða eignadreifingu til að draga úr heildaráhættu safnanna. Sjóðurinn birtir mánaðarlega upplýsingar um ávöxtunarleiðir þar sem meðal annars má lesa um eignasamsetningu. Smellið hér til að skoða upplýsingablöðin. Sjóðurinn birtir einnig ítarlegar upplýsingar um ávöxtun og sveiflur á heimasíðu, sjá nánar hér.