Jákvæð nafnávöxtun á fyrri helmingi árs
13. júlí 2023
Eftir erfitt ár á mörkuðum á síðasta ári þar sem lækkun varð á öllum helstu verðbréfa-mörkuðum þá fer fyrri hluti þessa árs mun betur af stað og er nafnávöxtun í öllum söfnum Almenna jákvæð á bilinu 4,8% – 5,7% á fyrri hluta árs 2023.
Ávöxtun blandaðra ávöxtunarleiða sem fjárfesta bæði í skuldabréfum og hlutabréfum hefur verið mjög góð á síðustu árum. Viðsnúningur varð síðan á árinu 2022 með óhagstæðri þróun fyrir fjárfesta og lækkunum á hlutabréfa- og skuldabréfamörkuðum. Helstu orsakaþættir voru áhyggjur af hárri verðbólgu, vaxtahækkanir, orkuskortur í Evrópu og áframhaldandi stríðsrekstur í Úkraínu. Þessir þættir lita vissulega ávöxtun á fyrri hluta þessa árs þó að víða hafi tekist að ná verðbólgu niður að nokkru leyti með stýrivaxtahækkunum seðlabanka.
Ávöxtunarleiðir Almenna lífeyrissjóðsins sem fjárfesta bæði í skuldabréfum og hlutabréfum skiluðu jákvæðri nafnávöxtun á fyrri helmingi ársins en þar sem verðbólga hérlendis var tiltölulega há á sama tíma eða um 5,3% er raunávöxtun safnanna óveruleg eða neikvæð. Þær ávöxtunarleiðir sem fjárfesta eingöngu í skuldabréfum og verðtryggðum innlánum hækkuðu mest á fyrri hluta ársins.
Erlend hlutabréf hækka, innlend lækka
Talsverðar sveiflur hafa verið á hlutabréfamörkuðum, bæði hérlendis og erlendis. Innlend hlutabréf hafa lækkað á árinu og nemur lækkun á heildarvísitölu aðallista um 7,8% á fyrstu 6 mánuðum ársins. Jákvæður viðsnúningur hefur hinsvegar orðið á flestum erlendum hlutabréfamörkuðum það sem af er ári og hefur heimsvísitala hlutabréfa MSCI hækkað um 15,1% í USD. Jafngildir það 12,2% hækkun í íslenskum krónum, þar sem krónan hefur styrkst gagnvart USD á árinu.
Ávöxtunarkrafa innlendra skuldabréfa hækkar áfram
Ávöxtunarkrafa bæði verðtryggðra og óverðtryggðra skuldabréfa hefur hækkað nokkuð á árinu sem leiðir til lækkunar á virði þeirra. Vísitala Kauphallarinnar fyrir 5 ára löng óverðtryggð skuldabréf hækkaði um 1,4% á fyrri hluta árs og sambærileg vísitala fyrir 10 ára löng óverðtryggð skuldabréf hækkaði um 4,5%. Vísitala Kauphallarinnar fyrir 10 ára löng verðtryggð skuldabréf hækkaði um 5,4% á árinu og skýrir hækkun á vísitölu neysluverðs þá verðbreytingu að mestu leyti.
Verðbólga náð hámarki
Væntingar eru um að verðbólga hérlendis og víða erlendis hafi náð hámarki og muni halda áfram að þokast niður, m.a. í kjölfar stýrivaxtahækkana. Hér innanlands hefur vísitala neysluverðs hækkað um 5,3% það sem af er ári og um 9,5% síðustu 12 mánuði. Spár innlendra greiningaraðila gera ráð fyrir að verðbólgan haldi áfram að hjaðna á næstu mánuðum. Verðbólga í Bandaríkjunum hefur einnig hjaðnað, hún fór hæst í rúm 9% fyrir um ári síðan en er nú í kringum 4%. Hægar gengur að ná verðbólgu niður í Bretlandi, en þar er 12 mánaða verðbólga nú yfir 8% og í Evrópu þar sem verðbólgan er nú ríflega 6%.
Upplýsingar um afkomu ávöxtunarleiða Almenna lífeyrissjóðsins:
Blönduð söfn | Ávöxtun blandaðra ávöxtunarleiða, þ.e. Ævisafna I, II, III og samtryggingarsjóðs var á bilinu 4,8% til 4,9%. Hækkun varð á erlendum hlutabréfamörkuðum en á móti skiluðu innlend hlutabréf neikvæðri ávöxtun. |
Ríkissafn | Ríkissafnið hækkaði um 5,7%. Hækkun á ávöxtunarkröfu verðtryggðra skuldabréfa og hækkun á vísitölu neysluverðs skýra að mestu ávöxtun safnsins. |
Innlánasafn | Innlánasafnið hækkaði um 5,4%. Safnið ávaxtar eignir sínar að stærstum hluta á bundnum innlánsreikningum og vega verðtryggð innlán tæp 98% af eignum safnsins. |
Húsnæðissafn | Húsnæðissafnið hækkaði um 4,3%. Safnið ávaxtar eignir sínar að mestu í veðskuldabréfum, innlánum og í stuttum óverðtryggðum ríkisskuldabréfum. |
Góð eignadreifing
Ávöxtun verðbréfasafna ræðst af eignasamsetningu og ávöxtun einstakra verðbréfaflokka. Almenni lífeyrissjóðurinn leggur mikla áherslu á góða eignadreifingu til að draga úr heildaráhættu safnanna. Sjóðurinn birtir mánaðarlega upplýsingar um ávöxtunarleiðir þar sem meðal annars má lesa um eignasamsetningu. Smellið hér til að skoða upplýsingablöðin. Sjóðurinn birtir einnig ítarlegar upplýsingar um ávöxtun og sveiflur á heimasíðu, sjá nánar hér.