Góður ársfundur að baki
30. apríl 2013
Ársfundur Almenna lífeyrissjóðsins 2013 var haldinn á Grand Hótel Reykjavík þriðjudaginn 23. apríl 2013. Fundinn sóttu um 60 manns og fór hann vel fram. Á fundinum var lögð fram skýrsla stjórnar og ársreikningur fyrir árið 2012 auk þess sem kjósa þurfti tvo stjórnarmenn í aðalstjórn og einn í varastjórn.
- Afkoma sjóðsins var góð á árinu 2012. Ávöxtunarleiðir Almenna lífeyrissjóðsins hækkuðu um allt að 16,6% umfram verðbólgu á árinu sem er hæsta raunávöxtun sjóðsins frá upphafi. Á árinu tókst að ljúka mörgum svokölluðum hrunmálum sem höfðu valdið óvissu um eignamat allt frá hruni íslenska bankakerfisins árið 2008.
- Sigurbjörn Sveinsson formaður stjórnar Almenna lífeyrissjóðsins sagði að með afnámi neyðarráðstöfunar um að greiða öll séreignariðgjöld í innlánasafn væri starfsemi sjóðsins kominn í eðlilegan farveg á ný. Iðgjöld í séreignarsjóð eru greidd í ávöxtunarleið samkvæmt vali sjóðfélaga. Í Almenna lífeyrissjóðnum geta sjóðfélagar valið á milli sex ávöxtunarleiða.
- Tryggingafræðileg staða samtryggingarsjóðs batnaði á árinu vegna góðrar afkomu sjóðsins. Á móti kemur að á árinu voru teknar í notkun nýjar lífslíkur sem auka skuldbindingar um 1,5% vegna lengingar á meðalævi landsmanna. Heildarskuldbindingar samtryggingarsjóðs voru 3,9% umfram heildareignir í árlok og því var samþykkt lækka réttindi um 0,5% í sex mánuði í röð eða samtals um 3%.
Á fundinum urðu eftirfarandi breytingar á stjórn sjóðsins:
-
- Oddur Ingimarsson, læknir og viðskiptafræðingur og Ragnar Torfi Geirsson, deildarstjóri og kerfisfræðingur, voru kjörnir til þriggja ára í aðalstjórn sjóðsins. Ragnar er nýr stjórnarmaður en Oddur var í stjórninni fyrir en tímabili hans lauk í ár.
- Anna Karen Hauksdóttir, formaður Starfsmannafélags Íslandsbanka, var sjálfkjörin í varastjórn til þriggja ára þar sem enginn annar bauð sig fram.
Á fundinum voru samþykktar breytingar á lögum sjóðsins til samræmis við landslög sem kveða á um jafna kynjaskiptingu í stjórnum en kynjahlutfall hefur verið jafnt í stjórn Almenna lífeyrissjóðsins um nokkurt skeið. Fundurinn samþykkti einnig breytingu á lögum um að tillögu að endurskoðandi skuli birta viku fyrir ársfund þannig að mögulegt sé að kveða uppúr um óhæði hans og semja um kostnað við endurskoðun.
Gögn frá ársfundinum
Ársskýrsla 2012
Ávarp Sigurbjörns Sveinssonar, formanns stjórnar.
Almenni ársfundur 2013
Almenni skýrsla 2012 um tryggingafræðilega úttekt m.v. 31.12.2012.
Fundargerð ársfundar.