Framadagar framar vonum
08. febrúar 2013
Fulltrúum Almenna lífeyrissjóðsins var vel tekið á Framadögum háskólanna sem haldnir voru í Háskólanum í Reykjavík í byrjun febrúar. Tilgangur Framadaga er að gefa fyrirtækjum í starfskraftaleit og nemendum í atvinnuleit tækifæri til að hittast og kynna sig. Hápunktur Framadaga var sýning sem stóð frá kl. 11-16 á miðvikudag 6. febrúar. Tilgangurinn með þátttöku sjóðsins var að fræða ungt fólk, sem er að hefja starfsævina, um lífeyrismál almennt og þá sérstaklega um starfsemi Almenna lífeyrissjóðsins.
Viðtökurnar voru framar vonum en um 100 manns bókuðu sig á námskeið um lífeyrismál sem Almenni lífeyrissjóðurinn mun halda á næstunni. Á námskeiðinu verður boðið upp á fræðslu um lífeyrissjóðakerfið og hvað ber að hafa í huga varðandi lífeyrismál þegar fólk er að hefja starfsævina.