Fjárfestingarstefna Almenna lífeyrissjóðsins 2023

05. desember 2022

Fjárfestingarstefna Almenna lífeyrissjóðsins 2023

Fjárfestingarstefna Almenna lífeyrissjóðsins fyrir árið 2023 var samþykkt af stjórn sjóðsins þann 29. nóvember 2022.

Fjárfestingarstefnan er birt í heild sinni á vefsíðu sjóðsins, sjá hér.  Helstu breytingar frá fjárfestingarstefnu 2022 eru eftirfarandi:

  • Breytingar eru gerðar á stefnu um samsetningu skuldabréfa í ævisöfnum og samtryggingar­sjóði á milli ára. Stefna um skuldabréf og lánasamninga í erlendri mynt er aukin og á móti er vægi innlendra skuldabréfa minnkað. Í Ævisafni III er stefna um vægi skuldabréfa í erlendri mynt aukin hlutfallslega meira en í öðrum söfnum. Markmiðið með breytingunni er að auka áhættudreifingu í söfnum.
  • Fjárfestingarstefnu Húsnæðissafns hefur verið breytt á þann hátt að stefna um sértryggð skuldabréf í safninu er tekin út en heimildir í vikmörkum eru óbreyttar. Heimild til fjárfestinga í sértryggðum skuldabréfum hefur ekki verið nýtt þar sem erfitt að ná eignadreifingu í þeim eignaflokki vegna smæðar safnsins. Á móti er vægi veðskuldabréfa og ríkisskuldabréfa aukið í stefnu.
  • Lágmarksviðmið um hlutfall auðseljanlegra eigna hefur verið skilgreint sem 65% í stað 70% í Ævisöfnum I – III og Húsnæðissafni. Breytingin er gerð til að auka svigrúm til fjárfestinga í eignum sem ekki eru skilgreindar sem auðseljanlegar. Í Ríkissafni er hlutfall auðseljanlegra eigna nú skilgreint sem 50% vegna eignar sjóðsins í skuldabréfum sem útgefin eru af ÍL-sjóði. Áfram er lögð áhersla á lausafjár­stýringu í séreignarleiðum sjóðsins og allar ávöxtunarleiðir eru nokkuð yfir skilgreindum lágmarksviðmiðum.
  • Litlar breytingar eru að öðru leyti gerðar á fjárfestingarstefnu ávöxtunarleiða á milli ára. Þó hefur vikmörkum einstakra eignaflokka í stefnu blandaðra safna verið hnikað til.
  • Erlend hlutabréf í samtryggingarsjóði eru í undirvigt m.v. fjárfestingarstefnu og stefnt er að því að auka erlendar fjárfestingar og að samtryggingarsjóður nái stefnu á næstu 2-3 árum.
  • Stefna Almenna lífeyrissjóðsins um ábyrgar fjárfestingar og eigendastefna eru staðfestar sérstaklega af stjórn og eru fylgiskjöl með fjárfestingarstefnu. Óverulegar breytingar eru gerðar á stefnunum á milli ára.