Enn styrkist krónan
07. júlí 2017
Helstu áhrifaþættir á ávöxtun blandaðra safna á fyrstu sex mánuðum ársins er hækkun á innlendum hlutabréfum og skuldabréfum og einnig hækkun á erlendum hlutabréfum en það sem hefur dregið úr ávöxtun safnanna er styrking íslensku krónunnar. Heildarvísitala Kauphallarinnar fyrir innlend hlutabréf hækkaði um 10,9% fyrstu sex mánuði ársins. Ávöxtunarkrafa langra verðtryggðra skuldabréfa lækkaði verulega fyrstu mánuði ársins með tilheyrandi gengishagnaði. Vísitala Kauphallarinnar fyrir 10 ára löng verðtryggð skuldabréf hækkaði um 6,8% á tímabilinu. Heimsvísitala hlutabréfa MSCI hækkaði um 10,6% í USD en vegna styrkingar krónunnar þá hækkaði hún um 1,3% í íslenskum krónum.
Töluverðar sveiflur í ávöxtun hafa einkennt fyrstu sex mánuði ársins en yfir tímabilið í heild hefur verið ágæt ávöxtun í söfnum Almenna.
- Hæst var ávöxtunin í Ríkissafni löngu sem hækkaði um 5%
- Blönduð söfn, sem fjárfesta í skuldabréfum, hlutabréfum og innlánum, hækkuðu um 2,9%-3,8%
- Ríkissafn stutt hækkaði um 2,7%
- Húsnæðissafn hækkaði um 2,4%
- Innlánasafn hækkaði um 1,9%
Upplýsingar um afkomu ávöxtunarleiða Almenna lífeyrissjóðsins:
Blönduð söfn | Blandaðar ávöxtunarleiðir, þ.e. Ævisafn I, II, III og samtryggingarsjóður hækkuðu fyrstu sex mánuði ársins um 2,9% til 3,8%. Lækkun ávöxtunarkröfu á löngum verðtryggðum skuldabréfum vóg þyngst í hækkun safnanna á árinu. Raunávöxtun blandaðra safna var á bilinu 1,8% til 2,7%. |
Ríkissafn langt | Ríkissafn langt hækkaði um 5% fyrstu sex mánuði ársins sem samsvarar 3,9% raunávöxtun. Ávöxtunarkrafa langra ríkisskuldabréfa lækkaði verulega með tilheyrandi gengishagnaði sem skýrir góða ávöxtun. |
Ríkissafn stutt | Ríkissafn stutt hækkaði um 2,7% fyrstu sex mánuði ársins sem samsvarar 1,6% raunávöxtun. Ávöxtun safnsins skýrist af lækkun á ávöxtunarkröfu óverðtryggðra skuldabréfa og lágri verðbólgu. |
Verðtryggð innlán | Innlánasafnið hækkaði um 1,9% fyrstu sex mánuði ársins sem samsvarar 0,9% raunávöxtun. Safnið ávaxtar eignir sínar á bundnum innlánsreikningum og vega verðtryggð innlán um 92% af eignum safnsins. |
Húsnæðissafn | Húsnæðissafnið hækkaði um 2,4% fyrstu sex mánuði ársins sem samsvarar 1,3% raunávöxtun. Safnið ávaxtar eignir sínar að mestu í sjóðfélagalánum, innlánum og í stuttum óverðtryggðum ríkisskuldabréfum. |
Góð eignadreifing
Ávöxtun verðbréfasafna ræðst af eignasamsetningu og ávöxtun einstakra verðbréfaflokka. Almenni lífeyrissjóðurinn leggur mikla áherslu á góða eignadreifingu til að draga úr heildaráhættu safnanna. Sjóðurinn birtir mánaðarlega upplýsingar um ávöxtunarleiðir þar sem m.a. má lesa um eignasamsetningu. Smellið hér til að skoða upplýsingablöðin.