Daufur fyrri hálfleikur, sá síðari er hafinn

04. júlí 2014

Töluverðar sveiflur voru á gengisþróun ávöxtunarleiða Almenna lífeyrissjóðsins á fyrri helmingi ársins 2014. Fyrstu þrír mánuðir ársins voru óhagstæðir fyrir flestar ávöxtunarleiðir vegna lækkunar á verðbréfamörkuðum heima og ytra á sama tíma og krónan styrktist. Einungis tvær ávöxtunarleiðir hækkuðu á fyrsta ársfjórðungi, Innlánasafn og Ríkissafn stutt. Í maí tóku erlendir markaðir við sér og hækkaði þá gengi ávöxtunarleiða sem eiga erlend verðbréf. Eftir miklar sveiflur hækkuðu því allar ávöxtunarleiðir nema Ríkissafn – langt á fyrri hluta ársins.

Gengisþróun ávöxtunarleiða Almenna lífeyrissjóðsins 1. janúar til 30. júní 2014

Ævisafn I 1,7% Innlánasafn 2,1%
Ævisafn II 1,2% Ríkissafn-langt -0,9%
Ævisafn III 1,0% Ríkissafn-stutt 1,4%
Samtryggingarsjóður 0,8%

Innlánasafn hækkaði mest eða um 2,1%. Verðtryggð innlán vega 94% af eignum og skýra verðbætur um helming hækkunarinnar þar sem verðlag hækkaði um 1,1% á fyrri hluta ársins.

Blandaðar ávöxtunarleiðir, Ævisafn I, Ævisafn II, Ævisafn III og samtryggingarsjóður hækkuðu um 0,8% til 1,7%. Erlend hlutabréf hækkuðu á tímabilinu en innlend hlutabréf og skuldabréf lækkuðu. Heimsvísitala hlutabréfa hækkaði um 6,0% í dollurum en 4,0% í íslenskum krónum. Vísitala aðallista lækkaði um 4,0% og 10 ára verðtryggð ríkisskuldabréfavísitala Kauphallar Íslands lækkaði um 1,2%.

Ríkissafn – langt lækkaði um 0,9% á fyrri hluta ársins. Skýringin á lækkun safnsins er fyrst og fremst hækkun á ávöxtunarkröfu verðtryggðra skuldabréfa og má sem dæmi nefna að ávöxtunarkrafa lengsta flokks íbúðarbréfa hækkaði úr 3,04% í 3,32%. Eins og bent var í fræðslugrein í apríl er hækkun á ávöxtunarkröfu yfirleitt góðar fréttir fyrir langtímafjárfesta.

Ríkissafn – stutt hækkaði um 1,4%. U.þ.b. 75% af eignum safnsins eru ríkisskuldabréf, sem hækkuðu nokkuð í verði á fyrri hluta ársins, þar af eru óverðtryggð ríkisskuldabréf um 55%. Óverðtryggð ríkisskuldabréfavísitala Gamma hækkaði um 1,1% á tímabilinu.

Horfur um ávöxtun til lengri tíma eru ágætar. Margt bendir til að íslenskt efnahagslíf sé að taka við sér og framundan sé tímabil vaxtar. Erlend hagkerfi eru einnig að jafna sig eftir skuldakreppu í hinum vestræna heimi og eru markaðsaðilar jákvæðir á hlutabréfamarkaði til langs tíma. Fyrir sjóðfélaga skiptir mestu máli að velja ávöxtunarleið eftir áhættuþoli og hæfi til að þola sveiflur í ávöxtun. Ráðgjafar Almenna lífeyrissjóðsins eru sem fyrr tilbúnir að veita upplýsingar um ávöxtunarleiðir sjóðsins, um eignasamsetningu, markaðs- og mótaðilaáhættu.