Ársreikningur 2014 birtur
27. febrúar 2015
Ársreikningur Almenna lífeyrissjóðsins fyrir árið 2014 hefur verið birtur. Reikningurinn verður lagður fyrir ársfund sjóðsins sem verður haldinn í Þingsal 2 á Icelandair Hótel Reykjavík Natura 17. mars 2015 kl. 17:15.
Ársreikninginn í heild má sjá með því að smella hér.
Þeim sem nota i-Pad eða Apple tölvur er bent á að skoða ársskýrsluna í Ibooks eða Firefox vafra eða vista og opna í Acrobat Reader. Safari vafri virkar ekki nógu vel.
Helstu atriði í reikningnum eru eftirfarandi:
- Heildareignir 156,5 milljarðar
- Greidd iðgjöld 8,5 milljarðar
- Greiddur lífeyrir 4,7 milljarðar
- Aukagreiðslur úr séreignarsjóði 2009-2013 samtals 11,3 milljarðar til 9.229 sjóðfélaga
- Raunávöxtun samtryggingarsjóðs 6,2%, 6,6% að jafnaði á ári síðustu 3 ár
- Raunvöxtun séreignarsjóðs á bilinu 0,0% til 8,7%
- Tryggingafræðileg staða batnaði á árinu og er innan skilgreindra jafnvægismarka
- Ný lán til sjóðfélaga jukust annað árið í röð
Nánar:
- Í árslok 2014 námu heildareignir Almenna lífeyrissjóðsins 156,5 milljörðum króna og stækkaði sjóðurinn um 14 milljarða eða um 10% á árinu. Sjóðfélagar í árslok voru 39.953 og fjölgaði þeim um 2.455 félaga. Eignir séreignarsjóðs voru 82,8 milljarðar og samtryggingarsjóðs 73,7 milljarðar.
- Greidd iðgjöld til sjóðsins árið 2014 voru samtals 8,5 milljarðar og hækkuðu um 631 milljón á milli ára. Iðgjöldin skiptust þannig að lágmarksiðgjöld voru 5,8 milljarður og viðbótariðgjöld 2,7 milljarðar.
- Ávöxtunarleiðir Almenna lífeyrissjóðsins hækkuðu um 1,0% til 9,8% á árinu 2014.Hæst var raunávöxtunin á Ævisafni I eða 8,7%. Raunávöxtun hefur verið góð undanfarin ár og síðastliðin þrjú ár hefur Ævisafn I skilað 9,8% raunávöxtun og samtryggingarsjóður 6,6%.
- Árið 2014 greiddi Almenni lífeyrissjóðurinn samtals 4,7 milljarða í lífeyri. Lífeyrisgreiðslur samtryggingarsjóðs voru alls 1.206 milljónir sem er 7% hækkun frá árinu áður. Heildarfjöldi lífeyrisþega var 1.145. Greiðslur úr séreignarsjóði námu alls 3,5 milljörðum sem er 44% hækkun frá árinu áður.
- Heildarfjöldi þeirra sem tóku út séreignarsparnað á árinu samkvæmt tímabundinni opnun var 1.681. Heimild til að sækja um útborgun séreignarsjóðs vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði féll niður þann 1. janúar 2015.
- Tryggingafræðileg staða samtryggingarsjóðs batnaði á árinu og eru bæði áunnin staða og heildarstaða innan skilgreindra jafnvægismarka. Í lok ársins voru áfallnar skuldbindingar 1,7% umfram eignir og heildarskuldbindingar 0,7% umfram heildareignir (núverandi eignir að viðbættu núvirði framtíðariðgjalda).
- Sjóðurinn lánaði sjóðfélögum 1.039 milljónir með veði í fasteignum en árið 2013 voru veitt lán fyrir 927 milljónir. Þetta er annað árið í röð sem útlán aukast en árið 2012 voru veitt 48 lán fyrir 596 milljónir.
- Almenni lífeyrissjóðurinn býður sjóðfélögum sem vilja ítarlegar upplýsingar og ráðgjöf að koma á sérstaka stöðufundi. Á fundunum er farið yfir áunnin lífeyrisréttindi og bent á leiðir til að bæta við eftirlaunin og verjast fjárhagslegum áföllum vegna örorku eða fráfalls. Sjóðfélagar geta bókað stöðufundi á heimasíðu sjóðsins en nú þegar hafa um 900 sjóðfélagar nýtt sér þessa þjónustu.
Ársfundur 2015
Nánari upplýsingar um rekstur og afkomu Almenna lífeyrissjóðsins verða veittar á ársfundi hans þriðjudaginn 17. mars kl. 17:15 á Icelandair Hótel Reykjavík Natura (Þingsal 2). Fundurinn verður nánar auglýstur síðar.
Á ársfundinum skal kjósa tvo aðalmenn og einn varamann í stjórn til þriggja ára. Vakin er athygli á því að framboðum til stjórnar (aðalmenn) skal skila viku fyrir ársfund sjóðsins. Framboðsfrestur til stjórnar rennur út þann 10. mars 2015 kl. 24:00. Vakin er athygli á því að samkvæmt samþykktum skal stjórn sjóðsins skipuð þremur konum og þremur körlum. Í stjórn eru þegar þrír karlmenn þannig að eingöngu konur geta gefið kost á sér að þessu sinni.
Hægt er að senda inn framboð á netfangið almenni@almenni.is.