Ársreikningur 2012
22. mars 2013
Almenni lífeyrissjóðurinn hefur birt ársreikning sjóðsins fyrir árið 2012. Reikningurinn verður lagður fyrir ársfund sjóðsins sem verður haldinn 23. apríl 2013 á Grand Hótel Reykjavík kl. 17:15.
Helstu atriði í reikningnum eru eftirfarandi:
- Sjóðurinn stækkaði um 17% á árinu eða 18,9 milljarða en í árslok 2012 námu heildareignir hans 129 milljörðum króna. Sjóðfélagar í árslok voru 34.858 og fjölgaði á árinu um 1.562 félaga eða 4,7%. Eignir séreignarsjóðs voru 69,5 milljarðar og samtryggingarsjóðs 59,5 milljarðar.
- Greidd iðgjöld til sjóðsins árið 2012 voru samtals 7,5 milljarðar sem er um 140 milljónum minna en árið áður. Samdrátturinn skýrist af minnkun í viðbótariðgjöldum sem nam um 450 milljónum en á sama tíma varð 310 milljóna aukning á lágmarksiðgjöldum.
- Allar ávöxtunarleiðir Almenna lífeyrissjóðsins skiluðu jákvæðri nafnávöxtun á árinu en að teknu tilliti til 4,5% verðbólgu var raunávöxtun ávöxtunarleiða sem hér segir: Ævisafn I 16,6%, Ævisafn II 11,7%, Ævisafn III 5,8%, Innlánasafn 1,9%, Ríkissafn langt 1,8%, Ríkissafn stutt -0,4% og samtryggingarsjóður 9,8%. Ávöxtun Ævisafns I var mesta raunávöxtun frá upphafi. Sjá nánar frétt um ávöxtun 2012 sem birtist 10. janúar sl.
- Árið 2012 greiddi Almenni lífeyrissjóðurinn samtals 4 milljarða í lífeyri. Lífeyrisgreiðslur samtryggingarsjóðs voru alls 963 milljónir árið 2012 sem er 8% hækkun frá árinu áður. Heildarfjöldi lífeyrisþega var 816.
- Lífeyrisgreiðslur séreignarsjóðs námu alls 3 milljörðum sem er 20% lækkun frá árinu áður. Heildarfjöldi þeirra sem tóku út séreignarsparnað á árinu samkvæmt tímabundinni opnun var 2.269. Framlenging á heimild um opnun séreignarsparnaðar var samþykkt á Alþingi á árinu 2012 en öllum sjóðfélögum er heimilt að taka út allt að 6,25 milljónir af séreignarsparnaði sínum. Í lok ársins 2012 hafði Almenni lífeyrissjóðurinn greitt 8,6 milljarða til 8.328 sjóðfélaga vegna tímabundinnar opnunar séreignarsparnaðar.
- Tryggingafræðileg staða samtryggingarsjóðs batnaði mikið milli ára þrátt fyrir meiri lífslíkur sem juku skuldbindingar sjóðsins um 1,5%. Í lok ársins voru áfallnar skuldbindingar 7,6% umfram eignir og heildarskuldbindingar 3,9% umfram heildareignir (núverandi eignir að viðbættu núvirði framtíðariðgjalda).
- Árið 2012 fækkaði nýjum lánum til sjóðfélaga mikið frá fyrra ári. Á árinu voru veitt 48 lán fyrir samtals 596 milljónir en árið 2011 voru afgreidd 115 lán fyrir 1,5 milljarð. Meðalfjárhæð nýrra lána til sjóðfélaga var 12,4 milljónir á árinu 2012. Í lok ársins var heildarfjárhæð útistandandi sjóðfélagalána 15.018 milljónir.
- Almenni lífeyrissjóðurinn býður sjóðfélögum sem vilja ítarlegar upplýsingar og ráðgjöf að koma á sérstaka stöðufundi. Á fundunum er farið yfir áunnin lífeyrisréttindi og bent á leiðir til að bæta við eftirlaunin og verjast fjárhagslegum áföllum vegna örorku eða fráfalls. Frá því stöðufundir voru kynntir árið 2011 hafa 277 sjóðfélagar bókað stöðufund með ráðgjafa, flestir á aldrinum 50 til 59 ára. Sjóðfélagar geta bókað stöðufundi á heimasíðu sjóðsins.
Ársfundur 2013
Nánari upplýsingar um rekstur og afkomu Almenna lífeyrissjóðsins verða veittar á ársfundi hans þriðjudaginn 23. apríl kl. 17:15 á Grand Hótel Reykjavík. Fundurinn verður nánar auglýstur síðar.
Á ársfundinum skal kjósa tvo aðalmenn og einn varamann í stjórn til þriggja ára. Vakin er athygli á því að framboðum til stjórnar (aðalmenn) skal skila viku fyrir ársfund sjóðsins. Framboðsfrestur til stjórnar rennur út þann 16. apríl 2013 kl. 24:00. Hægt er að senda inn framboð á netfangið almenni@almenni.is.