Almenni vinnur til verðlauna
06. desember 2019
Fagtímaritið Investment & Pensions Europe (IPE) valdi Almenna lífeyrissjóðinn besta lífeyrissjóð í Evrópu árið 2019 í löndum með færri íbúa en eina milljón. Þetta var í nítjánda sinn sem þessi árlegu verðlaun eru veitt og í þriðja sinn sem sjóðurinn hlýtur þau.
Dómnefnd lofar meðal annars rafræna miðlun upplýsinga hjá Almenna á opnum vef og sjóðfélagavef og segir hana bæta þjónustu við sjóðfélaga. Þá vakti einnig athygli dómnefndar að sjóðurinn sé að ná stöðugri fjölgun sjóðfélaga án þess að njóta aðstoðar bankaútibúa og án þess að greidd séu sölulaun.
Í tengslum við verðlaunin er haldin þriggja daga ráðstefna þar sem lífeyrissjóðir, fjárfestar og fleiri miðla af reynslu sinni og þekkingu. Í ár fór hátiðin fram í Tívolí ráðstefnuhöllinni í Kaupmannahöfn en á sjöunda hundrað manns sóttu ráðstefnuna og hátíðina. IPE verðlunin hafa verið veitt árlega frá árinu 2001 og hafa vaxið að umfangi ár frá ári. Alls bárust 434 innsendingar en verðlaun voru veitt í 43 flokkum. Það bárust því um 10 innsendingar í hverjum flokki að meðaltali. Sjóðir frá 22 löndum tóku þátt en heildarfjöldi sjóðfélaga hjá þátttakendum er um 75 milljónir. Þær eignir sem þátttökusjóðirnir ávaxta nema tveimur trilljónum evra. Dómnefnd skipuð fagfólki úthlutar verðlaunum í hverjum flokki en samtals sat 91 einstaklingur í dómnefndum.
Þessi verðlaun eru sjóðnum heiður og hvatning til að gera enn betur í þjónustu við sjóðfélaga.