Afmælissöfn
10. desember 2018
Um þessar mundir eru tímamót hjá tveimur af ávöxtunarleiðum Almenna; Innlánasafni og Húsnæðissafni. Innlánasafnið var stofnað í lok október 2008 og er því 10 ára og tvö ár eru síðan Húsnæðissafnið var stofnað í nóvember 2016.
Ef marka má stjörnuspekina eru bæði söfnin í sporðdrekamerkinu. Líklega hefur það meira með eignasamsetningu en stjörnumerki safnanna að gera að ávöxtun beggja hefur verið jöfn og stöðug. Ávöxtun Innlánasafnsins hefur verið 6,4% að jafnaði frá því í lok október 2008 sem samsvarar um 2,6% raunávöxtun. Raunvextir á verðtryggðum bankareikningum hafa farið lækkandi frá stofnun safnsins og gera má ráð fyrir því að Innlánasafnið skili í kringum 2% raunávöxtun miðað við vaxtakjör í dag. Ávöxtun Húsnæðissafnsins hefur verið 4,8% að jafnaði fyrstu tvö árin sem samsvarar 2,7% raunávöxtun. Húsnæðissafnið ávaxtar meirihluta eigna sinna í sjóðfélagalánum sem gerð eru upp miðað við vaxtakjör bréfanna (uppgreiðsluverð) og taka því ekki hefðbundnum markaðssveiflum. Það skilar sér í stöðugri og jafnri ávöxtun safnsins.
Innlánasafnið er hugsað fyrir sjóðfélaga sem vilja ávaxta inneign sína í bankainnlánum og hentar vel fyrir þá sem eru að ganga á inneign sína eða hyggjast gera það á næstunni. Inneignir sjóðfélaga í Innlánasafninu falla undir ákvæði laga nr. 98/1999 um innstæðustryggingar.
Húsnæðissafnið er hugsað fyrir sjóðfélaga sem eru að safna fyrir útborgun í fyrstu íbúð eða til að greiða inn á lán. Þar sem meirihluti eigna er ávaxtaður í sjóðfélagalánum má reikna með litlum gengissveiflum í safninu og því hentar það vel fyrir þá sem eru að ganga á inneign sína eða hyggjast gera það á næstunni.