2016 var ár íslensku krónunnar

11. janúar 2017

2016 var ár íslensku krónunnar

Árið 2016 einkenndist af styrkingu íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum og hafði styrkingin mikil áhrif á ávöxtun safna sem fjárfesta í erlendum verðbréfum (Ævisafn I, II, III og samtryggingar­sjóður). Íslenska krónan styrktist um 12,9% gagnvart Bandaríkjadal og um 15,7% gagnvart evru á árinu.

Ávöxtun eignaflokka var með ágætum á árinu, sérstaklega í löngum óverðtryggðum skuldabréfum auk þess sem ávöxtun innlendrar hlutabréfaeignar Almenna var töluvert hærri en ávöxtun á markaði. Heimsvísitala hlutabréfa hækkaði um 7,5% í USD en styrking ISK varð til þess að ávöxtun mæld í ISK var neikvæð um 6,4%. Verðbólga ársins 2016 var 2,1%.

Ágæt ávöxtun var í söfnum Almenna lífeyrissjóðsins á árinu, nema í söfnum sem eiga hátt hlutfall erlendra verðbréfa.

  • Hæsta ávöxtunin var í Ríkissafni stuttu sem hækkaði um 5,3% (3,1% raunávöxtun).
  • Blönduð söfn, sem fjárfesta í skuldabréfum, hlutabréfum og innlánum, áttu misjafnt ár og var ávöxtun þeirra á bilinu -0,5% til 3,9%. Helsta skýringin á ólíkri ávöxtun er mismunandi eigna­samsetning og styrking ISK.
  • Ríkissafn langt hækkaði um 4,9% (2,8% raunávöxtun)
  • Innlánasafn hækkaði um 4,2% (2,0% raunávöxtun)

Raunávöxtun hefur verið góð undanfarin ár og síðastliðin fimm ár hefur meðalávöxtun verið á bilinu 1,7% til 6,2% á ári í söfnum lífeyrissjóðsins.


Upplýsingar um afkomu ávöxtunarleiða Almenna lífeyrissjóðsins:

Blönduð söfn liðu fyrir styrkingu krónunnar Blönduð söfn (Ævisafn I, II, III og samtryggingarsjóður) áttu misjafnt ár þar sem söfn með hærra hlutfall erlendra verðbréfa liðu fyrir styrkingu krónunnar. Lægst var ávöxtunin á Ævisafni I (-0,5%) en erlend verðbréf vega um 45% af eignum þess safns. Hæsta ávöxtunin var í Ævisafni III (3,9%) en þar vega erlend verðbréf tæp 9% af eignum. Raunávöxtun blandaðra safna var á bilinu -2,5% til 1,8%.
Ríkissafn langt hækkaði um 4,9% Ríkissafn langt hækkaði um 4,9% á árinu. Ávöxtunarkrafa langra ríkisskuldabréfa breyttist lítið frá upphafi til loka árs og skýrir verðbólga og vaxtatekjur því hækkun safnins að mestu þetta árið.
Ríkissafn stutt hækkaði mest á árinu Ríkissafn stutt hækkaði um 5,3% á árinu sem samsvarar 3,1% raunávöxtun. Ávöxtun safnsins skýrist af lækkun á ávöxtunarkröfu óverðtryggðra skuldabréfa og lágri verðbólgu.
Innlánasafn hækkaði um 4,2% Innlánasafnið hækkaði um 4,2% á árinu sem samsvarar 2,0% raunávöxtun. Safnið ávaxtar eignir sínar á bundnum innlánsreikningum og vógu verðtryggð innlán um 93% af eignum í árslok.

 Góð eignadreifing
Ávöxtun verðbréfasafna ræðst af eignasamsetningu og ávöxtun einstakra verðbréfaflokka. Almenni lífeyrissjóðurinn leggur mikla áherslu á góða eignadreifingu til að draga úr heildaráhættu safnanna. Þrátt fyrir gjaldeyrishöft á liðnum árum eru eignir ævisafna og samtryggingarsjóðs vel dreifðar á útgefendur, atvinnugreinar og lönd. Sjóðurinn birtir mánaðarlega upplýsingar um ávöxtunarleiðir þar sem m.a. má lesa um eignasamsetningu. Smellið hér til að skoða upplýsingablöðin.