Getum við aðstoðað?

Hvaða fjárfestingarkostir eru í boði fyrir lífeyrissparnað hjá Almenna lífeyrissjóðnum?
Hvernig eiga sjóðfélagar að ávaxta inneign sína og iðgjöld?

 

Opna PDF skjal

Vegna gjaldeyrishafta og efnahagshruns hafa lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar úr afar fáum fjárfestingarkostum að velja þegar þetta er skrifað í byrjun júní 2011. Kostirnir eru aðallega ríkisskuldabréf og innlán sem bjóðast á sögulega lágum kjörum. Annað veifið býðst fjárfestum þó að kaupa skuldabréf með öðrum traustum útgefendum og að fjárfesta í arðvænlegum innlendum hlutabréfum. Dæmi um aðra útgefendur skuldabréfa eru Lánasjóður sveitarfélaga, stór sveitarfélög og fyrirtæki með ábyrgð ríkis eða sveitarfélaga (Landsvirkjun, Orkuveitan, o.fl.). Dæmi um arðvænleg hlutabréf er HS Orka eða safn óskráðra félaga með milligöngu Framtakssjóðs Íslands. Almenni lífeyrissjóðurinn kaupir eingöngu skuldabréf og hlutabréf sem uppfylla skilyrði í fjárfestingarstefnu sjóðsins.

Í nýlegri grein á fræðsluvefnum var fjallað um langtímaávöxtun og vitnað í nýútkomna bók með upplýsingum um ávöxtun skuldabréfa og hlutabréfa í 19 löndum á árunum 1900-2010. Í bókinni kemur fram að sagan sýnir afdráttarlaust að hlutabréf skila hæstu ávöxtuninni til langs tíma. Þrátt fyrir það borgar sig að dreifa áhættunni og fjárfesta einnig í skuldabréfum því það geta komið tímabil með lágri og jafnvel neikvæðri ávöxtun hlutabréfa og þessi tímabil geta verið löng. Sagan sýnir að það er ráðlegt að velja eignaflokka eftir sparnaðartíma, fjárfesta í dreifðu hlutabréfasafni framan af ævinni en auka vægi skuldabréfa og innlána eftir því sem sparnaðartíminn styttist.

Í áðurnefndri grein eru upplýsingar um langtímaávöxtun ríkisskuldabréfa í sömu löndum á tímabilinu. Ef sú ávöxtun er borin saman við ávöxtun innlendra ríkisskuldabréfa í júní 2011 má halda því fram að ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa hér á landi sé enn mjög áhugaverð þrátt fyrir að ávöxtunin hafi lækkað á liðnum árum. Hér verður þó að hafa í huga að Ríkissjóður Íslands er tiltölulega mikið skuldsettur og horfur í efnahagsmálum eru óvissar.


(Smelltu á mynd til að stækka)

Almenni lífeyrissjóðurinn býður sjóðfélögum að velja á milli sjö ávöxtunarleiða fyrir séreignarsparnað. Sjóðfélagar geta greitt iðgjöldin í þrjú blönduð verðbréfasöfn með mismunandi vægi skuldabréfa og hlutabréfa, tveggja mislangra ríkisskuldabréfasafna og í Innlánasafn sem ávaxtar eignir sínar á innlánsreikningum í fimm bönkum. Frá því í október 2008 hefur öllum iðgjöldum í séreignarsjóð verið ráðstafað sjálfkrafa í Innlánasafnið nema ef sjóðfélagar óska eftir annarri ráðstöfun. Þessi ákvörðun var tekin á sínum tíma vegna óvissu á fjármálamörkuðum og óvissu um mat á ýmsum eignum lífeyrissjóðsins vegna efnahagsáfallsins. Margt bendir nú til þess að það geti verið skynsamlegt fyrir sjóðfélaga að breyta ráðstöfun iðgjalda.

 

Ráðgjöf okkar er að taka mið af sparnaðartíma við val á ávöxtunarleið fyrir iðgjöld og eignir. Með sparnaðartíma er bæði átt við tímann sem eignir byggjast upp með sparnaði en einnig tímann þegar eigandi gengur á eignir með reglulegum úttektum.

  • Sparnaðartími > 10 ár. Veldu blönduð verðbréfasöfn ef sparnaðartíminn er langur eða lengri en 10 ár. Ráðgjöf okkar er að vel dreifð verðbréfasöfn séu besti kosturinn fyrir lífeyrissparnað og skili bestu ávöxtuninni til lengri tíma og áhættudreifingu. Við mælum með Ævileiðinni, en samkvæmt henni flytjast eignir milli safna eftir aldri sjóðfélaga. Ævisöfn Almenna lífeyrissjóðsins standa styrkum fótum og eru eignir vel dreifðar á lönd, eignaflokka og útgefendur. Söfnin fjárfesta einnig í öðrum skuldabréfum sem gefa hærri ávöxtun en ríkisskuldabréf. Skuldabréfin eru flest með föstum vöxtum sem er góður kostur til að læsa inni núverandi vaxtastig.
  • Sparnaðartími 3 til 10 ár. Ef sparnaðartíminn er 3 til 10 ár veldu þá Ríkissafn – langt. Í alþjóðlegum samanburði eru verðtryggðir vextir ríkisskuldabréfa ennþá nokkuð háir. Í safninu eru verðtryggð skuldabréf með föstum vöxtum sem þýðir að safnið mun hagnast ef markaðsvextir halda áfram að lækka. Ef vextirnir hækka mun ávöxtun safnsins lækka í skamman tíma og þess vegna ráðleggjum við að eigendur þurfi að reikna með a.m.k. þriggja ára sparnaðartíma. Ríkissafn – langt hentar einnig fyrir þá sem vilja ekki fjárfesta í hlutabréfum og erlendum verðbréfum og eru með sparnaðartíma lengri en 10 ár.
  • Sparnaðartími 1 til 5 ár. Ef sparnaðartíminn er stuttur veldu þá Innlánasafnið. Þeir sem vilja ekki sveiflur í ávöxtun ættu líka að velja Innlánasafnið jafnvel þó að sparnaðartíminn sé lengri, t.d. lífeyrisþegar eða þeir sem eru byrjaðir að ganga á inneign sína og hyggjast gera það á lengri tíma en 5 árum. Vextir á innlánsreikningum hafa lækkað mikið á síðustu tveimur árum en kjör á verðtryggðum reikningum eru þó enn um og yfir 3%. Eignir Innlánasafnsins eru að langmestu leyti á verðtryggðum reikningum og því ætti safnið að geta gefið áfram góða ávöxtun. Ef markaðsvextir halda áfram að lækka mun ávöxtun safnsins lækka samsvarandi.
  • Sparnaðartími 1 til 5 ár. Veldu Ríkissafn – stutt ef þú vilt ekki sveiflur í ávöxtun og vilt eingöngu fjárfesta í ríkisskuldabréfum. Safnið fjárfestir í stuttum óverðtryggðum ríkisskuldabréfum og innlánum.

Efnahagshrunið á Íslandi á árunum 2008 og 2009 á sér varla hliðstæðu á fjármálamörkuðum í heiminum. Á skömmum tíma hrundi allt fjármálakerfi landsins og í kjölfarið lentu nær öll fyrirtæki, mörg sveitarfélög og margir einstaklingar í skuldavanda á sama tíma. Það er því afar eðlilegt að íslenskir fjárfestar séu varkárir og áhættufælnir. Það er gott því það er mikilvægt að draga lærdóm af hruninu og leggja áherslu á gæði eigna og áhættudreifingu. En við verðum að halda áfram og fylgja góðum ráðum og gildum.

Kosturinn við lífeyrissparnað er að sparnaðartími er yfirleitt langur sem gerir kleift að fjárfesta í eignum sem sveiflast en gefa góða langtímaávöxtun. Mikilvægt er fyrir íslenska fjárfesta að nýta sér þessa staðreynd og tileinka sér aftur þann hugsanahátt að velja ávöxtunarleið eftir sparnaðartíma. Á næstu árum munu bjóðast fjárfestingatækifæri innanlands sem hafa jákvæð áhrif á langtímaávöxtun blandaðra verðbréfasafna. Miklu skiptir einnig að gjaldeyrishöft verði afnumin sem fyrst en við það aukast möguleikar til ávöxtunar og áhættudreifingar.

 

Hvernig getur Almenni aðstoðað þig?