Hvað á ég að reikna með að eftirlaunasparnaðurinn þurfi að duga í mörg ár?
Hvað get ég reiknað með að lifa lengi?
Hvenær má ég tæma séreignarsjóðinn minn?
Þegar gerð er áætlun um eftirlaunasparnað þarf að huga að því hvað eftirlaunasjóður þarf að duga lengi. Tímalengdin fer eftir því hvenær hætt er að vinna og hversu lengi fólki endist líf. Þegar kemur svo að töku lífeyris þarf að ákveða hversu hratt þarf að ganga á eftirlaunasparnaðinn.
Eftirlaunaárin geta varað í áratugi og því þarf að gæta þess að ganga ekki of hratt á uppsafnaðan eftirlaunasparnað. Samkvæmt tölum um meðalævilengd þarf að reikna með að eftirlaunasjóður verði að duga í að minnsta kosti 20 ár ef starfsævinni lýkur við 60 ára aldur og 15 ár ef hætt er að vinna 65 ára.
Hér koma nokkur ráð sem gott er að hafa í huga við gerð áætlunar um eftirlaunasjóð.
- Stefndu að því að koma þér í þá stöðu að þú getir sjálfur ákveðið hvenær þú hættir að vinna. Gerðu áætlun miðað við að þú hættir tiltölulega snemma, t.d. á aldursbilinu 60 til 65 ára.
- Vertu varkár og reiknaðu með að eftirlaunasjóður þurfi að duga lengi. Þú skalt að a.m.k. reikna með að eftirlaunasjóður dugi til að tryggja viðunandi eftirlaun m.v. meðalævilengd og helst lengur (t.d. meðalævilengd plús fimm ár). Ef það er langlífi í ættinni hjá þér skaltu taka það með í reikninginn og reikna með lengri tíma.
- Taktu tillit til aldurs maka og reiknaðu með að samanlagður eftirlaunasjóður dugi til að tryggja ykkur báðum góð eftirlaun.
Þegar kemur að starfslokum verður ellilífeyrir lífeyrissjóða stærsti tekjuliðurinn hjá flestum. Eftirlaunaárin eru langur tími og því þarf að passa vel upp á lífeyrisréttindin.
Hvernig getur Almenni aðstoðað þig?
- Almenni lífeyrissjóðurinn býður sjóðfélögum að hitta ráðgjafa á stöðufundi um lífeyrisréttindi. Á stöðufundinum er farið yfir réttindi sjóðfélaga og veitt góð ráð um samsetningu lífeyrisréttinda og lífeyrisgreiðslur. Þú getur pantað stöðufund hér.
- Á sjóðfélagavef Almenna lífeyrissjóðsins getur þú fylgst með inneign í séreignarsjóði og réttindum í samtryggingarsjóði. Smelltu hér til að opna sjóðfélagavef eða sækja um aðgang.