Getum við aðstoðað?

Hvernig er best að dreifa áhættu?
Hvernig næ ég góðri áhættudreifingu á sparnaðinn minn?

Það er ekki hægt að komast hjá því að taka áhættu með sparnaðinn sinn. Hins vegar er hægt að stýra áhættunni með því að velja fjárfestingarstefnu sem tekur mið af eigin áhættuþoli og gera ráðstafanir til að draga úr áhættu.

Áhætta sparifjáreiganda er aðallega tvenns konar.

  • Skuldaraáhætta er sú áhætta að fjárfesting tapist vegna gjaldþrots útgefanda verðbréfs eða þess sem á að inna af hendi greiðslu. Skuldaraáhætta er talin lítil ef skuldabréf er með ríkisábyrgð. Skuldaraáhætta minnkar með auknum fjölda útgefenda í söfnum.
  • Markaðsáhætta er hættan á að verð eignar sé lágt þegar eigandi þarf á henni að halda og hyggst selja hana. Eignir geta hækkað og lækkað í verði vegna markaðsaðstæðna, efnhagsástands og flökti á gengi gjaldmiðla. Markaðsáhætta minnkar eftir því sem sparnaðartími er lengri því þá minnka áhrif einstakra sveiflna og jafnast út með tímabilum hárrar og lágrar ávöxtunar.

Leiðir til að draga úr áhættu eftirlaunasparnaðar eru:

  • Fjárfestu að hluta í ríkisskuldabréfum til að draga úr tapsáhættu. Hér getur þú lesið um hvað þarf að skoða áður en keypt eru ríkisskuldabréf.
  • Fjárfestu í mörgum eignaflokkum (innlán, skuldabréf, hlutabréf) til að dreifa áhættu.
  • Fjárfestu í sjóðum. Með því að fjárfesta í sjóðum eignast einstaklingar hlutdeild í dreifðari eignasöfnum en þeir geta náð sjálfir. Veldu aðeins sjóði sem veita góðar upplýsingar um eignir og geta sýnt fram á góða áhættudreifingu.
  • Góð áhættudreifing er lykilatriði þegar fjárfest er í hlutabréfum. Fjárfestu í mörgum félögum eða sjóðum sem fjárfesta í mörgum félögum til að draga út vægi einstakra hlutafélaga.
  • Fjárfestu í innlendum og erlendum verðbréfum. Með því að fjárfesta í erlendum verðbréfum dreifist áhættan á fleiri hagkerfi en það íslenska sem er bæði smátt og einhæft. Vegna gjaldeyrishafta eru nýfjárfestingar erlendis óheimilar tímabundið.
  • Geymdu hluta af sparnaðinum á innlánsreikningum. Kosturinn við innlánsreikninga er að höfuðstóll sveiflast ekki við vaxtabreytingar. Gættu að innlánstryggingum og dreifðu fjárfestingunni á fleiri en eina innlánastofnum ef innlán eru hærri en hámarkstrygging í lögum um Tryggingarsjóð innstæðueigenda.
  • Veldu ávöxtunarleið eftir aldri eða áætluðum sparnaðartíma sem ræður mestu um hvaða markaðsáhættu er hægt að taka. Hér getur þú lesið góð ráð um ávöxtun og sparnaðartíma.

Eftirlaunasparnaður ræður mestu um fjárhagslega afkomu þegar vinnu lýkur. Þess vegna er áhættudreifing eitt af lykilorðunum við ákvörðun um eignasamsetningu og þarf að taka bæði tillit til skuldara- og markaðsáhættu. Einfalt ráð dugir í því efni. Dreifðu, dreifðu og dreifðu.

Hvernig getur Almenni aðstoðað þig?