Getum við aðstoðað?

Hvenær borgar sig að skipta lífeyrissréttindum á milli hjóna?
Er hægt að skipta inneign í séreignarsjóði milli hjóna?

Í nútímaþjóðfélagi er algengast að báðir aðilar hjónabands eða sambúðarfólks séu útivinnandi og safni upp sjálfstæðum lífeyrisréttindum. Aðstæður geta leitt til þess að lífeyrisréttindin verði ólík þrátt fyrir sameiginlegan fjárhag. Oftast er það vegna þess að annar makinn fær hærri laun en hinn en stundum eru heimilisaðstæður ástæðan. Þannig getur myndast munur á lífeyrisréttindum ef annar makinn hefur þurft að vera frá vinnu, t.d. vegna barnauppeldis eða menntunar. Í lögum um lífeyrissjóði er ákvæði um að sjóðfélaga sé heimilt að skipta ellilífeyrisréttindum milli sín og maka síns.
Í lögunum er maki skilgreindur sem sá eða sú sem við andlátið var í hjúskap eða óvígðri sambúð með sjóðfélaga enda hafi fjárfélagi (sameiginlegum fjárhag) ekki verið slitið fyrir andlát sjóðfélagans. Það getur verið skynsamlegt þegar lífeyrisréttindi eru ójöfn að tryggja báðum ásættanlegan lífeyri eftir að annar aðili hjónabands eða sambúðar er fallinn frá. Tilgangurinn er þá fyrst fremst að draga úr áhættu með því að tryggja þeim maka sem á lægri lífeyrisréttindi lágmarksframfærslu. Það eru alltaf tvær hliðar á áhættustýringu og þegar ein áhætta er minnkuð eykst önnur. Í þessu tilviki er gagnáhættan sú að ef tekjulægri makinn deyr á undan hinum þá hefur sá sem eftir lifir framselt helming réttinda sinna sem þá falla niður við andlát makans. Þegar lífeyrisréttindi eru ójöfn má einnig færa sterk rök fyrir því að skipting réttinda sé sanngirnismál. Skipting lífeyrisréttinda hefur ekki áhrif á önnur réttindi í lífeyrissjóðum. Þannig heldur sjóðfélagi örorkuréttindum sínum, maki fær greiddan makalífeyri við fráfall sjóðfélaga og barnalífeyrir er greiddur ef starfsorka sjóðfélaga skerðist eða hann fellur frá.

 

Skipting ellilífeyrisréttinda er gerð með samkomulagi sjóðfélaga og maka og fela í sér gagnkvæma og jafna skiptingu réttinda á meðan að hjúskapur eða óvígð sambúð varir. Með gagnkvæmri skiptingu er átt við að bæði hjónin þurfa að skipta réttindum sínum þannig að bæði veita hinu sama hlutfall réttinda sinna. Hlutfallið getur verið allt að 50%. Skilyrði fyrir því að hægt sé að skipta áunnum réttindum er að sjúkdómar og heilsufar sjóðfélaga dragi ekki úr lífslíkum þeirra.
Með samkomulagi um skiptingu áunninna réttinda þarf að fylgja heilsufarsvottorð læknis. Skipting ellilífeyrisréttinda á hvorki að verða til þess að auka eða minnka skuldbindingar þeirra lífeyrissjóða sem eiga í hlut. Þetta þýðir að maki fær yfirleitt ekki sömu réttindi í krónum og sjóðfélaginn, heldur fær makinn réttindi í samræmi við aldur sinn og kyn. Þarna er farið eftir því hvað reikna má með að makinn lifi lengi miðað við sjóðfélagann og tekið er tillit til þess að konur lifa að meðaltali lengur en karlar.


Sjóðfélagar geta einnig óskað eftir skiptingu séreignar, ýmist samhliða skiptingu réttinda eða sérstaklega. Á sama hátt og með réttindi skal skipting inneignar fara fram með samkomulagi og fela í sér gagnkvæma og jafna skiptingu inneignar meðan hjúskapur eða sambúð hefur staðið eða stendur. Sjóðfélagi getur ákveðið að inneign hans skuli allt að hálfu renna til að mynda sjálfstæða inn­­eign fyrir maka hans eða fyrrver­andi maka og lækkar þá inneign sjóð­félag­ans sem því nemur. Þörfin fyrir skiptingu séreignar er ekki eins mikil þar sem inneign erfist við fráfall sjóðfélaga.
Við fráfall fær eftirlifandi maki hjónabands tvo þriðju inneignar (50% sem hjúskapareign og 1/3 af hinum helmingnum) á móti börnum sem fá einn þriðja. Ein rök fyrir skiptingu séreignar er að þannig er hægt að hækka hlut maka í 83,5% (50% plús 2/3 af 50%). Önnur rök er að í sumum tilvikum geta sjóðfélagar lækkað tekjuskatt með þessu móti en hjón geta lækkað tekjuskatta með samsköttun ef annar makinn er með tekjur í skattþrepi 3 og hinn makinn er með tekjur í þrepi 2. Í því tilviki má færa 50% af því sem makinn í lægra skattþrepinu nýtir ekki og skattleggja hjá hinum í skattþrepi 2.

Hér koma nokkrar ráðleggingar um skiptingu lífeyrisréttinda og inneignar.

  • Ef lífeyris­réttindi hjóna eða sambúðaraðila eru ójöfn getur verið skynsamlegt að skipta þeim til að tryggja hag beggja í starfslok. Ef annað hjóna á til dæmis fjórum sinnum meiri ellilífeyrisréttindi en hitt og fellur frá rétt fyrir starfslok, eða stuttu eftir þau, þá fær eftirlifandi maki greiddan makalífeyri tímabundið en síðan falla réttindin niður. Eftir það fengi makinn aðeins einn fimmta af þeim ellilífeyrisréttindum sem hjónin höfðu áunnið sér. Ef réttindum væri hins vegar skipt til helminga fengi makinn alltaf helminginn af réttindunum og makalífeyri að auki.
  • Taktu tillit til makalífeyrisréttinda við ákvörðun um skiptingu lífeyrisréttinda. Almennt eru makalífeyrisréttindi eingöngu tímabundin en áður fyrr var algengt að makalífeyrisréttindi væru ævilöng. Hjá sjóðfélögum sem hafa áunnið sér slík réttindi er minni þörf á skiptingu ellilífeyrisréttinda.
  • Skoðaðu hvaða áhrif skipting ellilífeyrisréttinda hefur á ellilífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Skipting réttinda getur leitt til þess að lífeyrir frá TR lækki samsvarandi því sem ellilífeyrisgreiðslur tekjulægri makans hækka við skiptinguna. Þá borgar sig ekki að skipta lífeyrisréttindunum. Þessi ábending á fyrst og fremst við hjá þeim sem eiga stutt í að fara á lífeyri.
Þegar sjóðfélagi óskar eftir að skipta réttindum snýr hann sér til þess lífeyrissjóðs sem hann greiðir iðgjald í eða greiddi síðast í. Hjá lífeyrissjóðnum fær hann samningseyðublað og fylgiskjöl sem hann fyllir út og skilar aftur til sjóðsins. Lífeyrissjóðurinn sér um að senda heilbrigðisvottorð til trúnaðarlæknis sjóðsins til yfirferðar. Skjölin ásamt yfirlýsingu trúnaðarlæknis eru síðan send til Landssamtaka lífeyrissjóða sem tilkynna hlutaðeigandi lífeyrissjóðum um það samkomulag sem hjónin hafa gert. Með samræmdri framkvæmd á skiptingu réttinda á vegum Landssamtaka lífeyrissjóða er tryggt að skiptingin verði gagnkvæm og að allir viðkomandi lífeyrissjóðir taki þátt í henni.

Ákvæði um skiptingu lífeyrisréttinda var mikil réttarbót þegar það kom inn í lífeyrissjóðalögin árið 1997, sérstaklega fyrir hjón þar sem annar aðilinn var heimavinnandi. Þrátt fyrir að þörfin hafi minnkað á síðustu áratugum þar sem báðir aðilar hjónabands vinna yfirleitt úti ætti sambýlisfólk með ólíkar tekjur að skoða þennan möguleika til að tryggja lágmarksframfærslu. Það borgar sig þó að hugsa málið til enda áður en ákvörðun er tekin um að skipta áunnum ellilífeyrisréttindum því skiptingin verður ekki aftur tekin.

Hvernig getur Almenni aðstoðað þig?

  • Almenni lífeyrissjóðurinn býður sjóðfélögum að hitta ráðgjafa á stöðufundi um lífeyrisréttindi. Á stöðufundinum er farið yfir réttindi sjóðfélaga og veitt góð ráð um samsetningu lífeyrisréttinda og lífeyrisgreiðslur. Þú getur pantað stöðufund hér.
  • Á sjóðfélagavef Almenna lífeyrissjóðsins getur þú fylgst með inneign í séreignarsjóði og réttindum í samtryggingarsjóði. Smelltu hér til að opna sjóðfélagavef eða sækja um aðgang.