Hvað þarf ég að skoða áður en ég kaupi ríkisskuldabréf?
Hvaða ríkisskuldabréf á að velja til skamms eða langs tíma?
Ríkisskuldabréf eru góður sparnaðarkostur fyrir einstaklinga og aðra fjárfesta þar sem ríkissjóður er talinn traustasti skuldarinn í hverju landi. Með ríkisskuldabréfum er hér átt við verðtryggð- og óverðtryggð skuldabréf og víxla útgefna af Ríkissjóði Íslands sem og skuldabréf með fullri ábyrgð ríkissjóðs en undir það falla m.a. skuldabréfaútgáfur Íbúðalánasjóðs.
Við kaup á ríkisskuldabréfum skiptir miklu máli til hversu langs tíma er fjárfest og hvert markmið með fjárfestingunni er.
- Ef ætlunin er að nýta fjármunina innan skamms tíma er æskilegt að lágmarka verðsveiflur.
- Ef nýta á fjármunina síðar er æskilegt að hámarka kaupmátt fjármunanna til lengri tíma.
Hér koma nokkur góð ráð sem gott er að hafa í huga við val á ríkisskuldabréfum.
- Meðaltími skiptir máli. Því lengri sem meðaltími skuldabréfs er því meiri verðsveiflur eru á markaðsverði bréfs. Þannig getur skuldabréf með langan meðaltíma lækkað umtalsvert á skömmum tíma ef vextir hækka og því er æskilegt að kaupa skuldabréf með stuttan meðaltíma sé ætlunin að nýta fjármunina innan skamms tíma.
- Verðtryggð skuldabréf eru góður kostur ef ætlunin er að vernda kaupmátt fjármuna til lengri tíma. Á verðtryggðum skuldabréfum greiðast verðbætur á afborganir og vexti á gjalddögum og á höfuðstól við sölu eða á lokagjalddaga. Allir virkir innlendir flokkar verðtryggðra ríkisskuldabréfa eru með tiltölulega langan meðaltíma eða frá um 2 árum upp í um 14 ár og geta verðsveiflur því verið miklar.
- Stutt skuldabréf eru ráðleg ef ætlunin er að nýta fjármunina innan skamms tíma þar sem verðsveiflurnar eru litlar. Almennt er lítið um stutta verðtryggða fjárfestingakosti og því ekki um annað að velja en óverðtryggð ríkisskuldabréf eða bankabók ef ætlunin er að lágmarka verðsveiflur til skamms tíma.
- Óverðtryggð skuldabréf með langan meðaltíma geta verið góður fjárfestingakostur í lækkandi vaxtaumhverfi þar sem langur meðaltími gefur verðhækkun við lækkun vaxta og/eða í lágri verðbólgu þar sem óverðtryggðir nafnvextir eru almennt hærri en nafnvextir verðtryggðra skuldabréfa. Meðaltími óverðtryggðra ríkisskuldabréfa er frá nokkrum mánuðum upp í um 12 ár.
Hvernig getur Almenni aðstoðað þig?
- Almenni lífeyrissjóðurinn býður sjóðfélögum að hitta ráðgjafa á stöðufundi um lífeyrisréttindi. Á stöðufundinum er farið yfir réttindi sjóðfélaga og veitt góð ráð um samsetningu lífeyrisréttinda og lífeyrisgreiðslur. Þú getur pantað stöðufund hér.
- Á sjóðfélagavef Almenna lífeyrissjóðsins getur þú fylgst með inneign í séreignarsjóði og réttindum í samtryggingarsjóði. Smelltu hér til að opna sjóðfélagavef eða sækja um aðgang.